Wednesday, March 31, 2010

Kóngavegur og The Good Heart

Fór á hana á mánudaginn. Var búinn að sjá trailerinn og verða hrifinn. Reyndar er ég mikið á móti trailerum og reyni að forðast að mynda mér skoðun á myndinni útfrá þeim. Kóngavegur er samt kannski ein af þeim fáu myndum sem á eitthvað sameiginlegt með trailernum. Mér fannst hún öll eiginlega bara langur trailer.

Kóngavegur fjallar um fólk í hjólhýsahverfi á Íslandi. Það er eiginlega allur söguþráðurinn. Líf þessa fólks er frekar glatað, og myndin fjallar eiginlega um hvernig það verður verra. Ekki slæm hugmynd svosem, en mér fannst vanta aðeins meira samhengi og eiginlega að eitthvað myndi gerast. Þess vegna finnst mér hún vera langur trailer, það er fullt af góðum atriðum, en þau eru bara í belg og biðu.

Annars voru karakterarnir mjög skemmtilegir flestir. Bestir fannst mér Ray og Davis, en þeir nafnarnir leikararnir sýndu lang bestu frammistöðuna að mínu mati. Þeirra saga var líka um eitthvað, annan langaði í mömmu en hinn hataði þá hugmynd. Svo eignast þeir mömmu en ekkert skánar við það. Hinar sögurnar fannst mér samhengislausar þó að persónurnar væru vissulega áhugaverðar.


Þegar ég kom heim eftir myndina var ég spurður á hvaða mynd ég hefði verið. Ég svaraði að þetta hefði verið mynd sem væri að reyna að vera Djöflaeyjan, en tókst það ekki alveg. Ég held mig við þá niðurstöðu. Ruglaðar persónur, hörmulegar heimilisaðstæður, fyndnar uppákomur og heimskulegar setningar. En ekki jafn hjartnæm, náði aldrei því sem ég vildi sjá.


Fór á sýninguna eftir sýninguna sem hópurinn fór á. Einhvern veginn kemur alltaf eitthvað upp klukkan 6 á sunnudögum, en annars hef ég aldrei neitt að gera allan sunnudaginn. En það skiptir ekki máli.

The Good Heart fjallar um samband tveggja manna, annar þeirra er gamall skröggur og bareigandi, en hinn er ungur og heimilislaus ... tja aumingi. Eftir að sá gamli, Jacques, fær hjartaáfall í sirka 5. sinn hittir hann Lucas á spítalanum. Lucas hafði þá reynt sjálfsmorð, en mistekist. Jac tekur Lucas að sér því hann vantar erfinga að barnum sínum.

Jac lifir í sínum eigin heimi þar sem hann ræður öllu. Það eru bara nokkrir fastagestir á barnum og hann leyfir enga nýja viðskiptavini. Lucas er andstæða Jacs, vill bara gera gott og hjálpa öðrum. Hann er eiginlega of góður því hann hugsar bara um aðra og gefur t.d. öllum rónunum í kringum sig pening þegar hann eignast eitthvað smotterí.

Við fáum ekkert að vita um fortíð þeirra, myndin byrjar bara þegar þeir lenda báðir á spítalanum. Dagur sagði sjálfur í viðtalinu að hann vildi ekki sýna fortíð þeirra, engin flashbacks eða eitthvað kjaftæði. Persónurnar eru eins og þær eru vegna allrar sinnar fortíðar, en ekki einhvers eins atviks sem hægt væri að sýna. Mér fannst þetta góður punktur hjá honum því það er mikið um það að sýna flashbacks til að útskýra hegðun persóna. Það er þó hægt að vera viss um að Jac hefur verið svikin einhvern tíma af konu því hann leyfir þær ekki á sinni návist. Barinn er karlaveldi og þangað leita menn í frið frá konunum.

Það fer þess vegna alveg með Jac þegar April birtist á barnum upp úr þurru og Lucas býður henni uppá kampavín og allan pakkann. Þar er kominn erkióvinur Jac og hún hristir upp í samfélaginu sem þeir félagarnir voru búnir að koma sér upp.



The Good Heart snýst um persónusköpunina. Það heppnast alveg enda einvala lið leikara. Brian Cox er alveg frábær og vart hægt að hugsa sér betri mann í hlutverkið. Hann er bókstaflega vaxinn til þess að gera þetta. Paul Dano er líka góður, hann er með svona aumingjalegt andlit og einhver vonlausan svip sem á vel við þetta hlutverk. Myndin byggist á samspili þeirra tveggja, og þeir standa undir þeim væntingum.

Mér fannst það lang besta vera atriðið með brokkolíið. Þegar hann segir að brokkolí sé eins og prump í laginu... ég fékk bara vitrun, þetta var svo mikið satt. Ég er ennþá að hlægja að þessu í hvert skipti sem ég man eftir því.