Friday, April 16, 2010

Gremlins og Up in the Air


Varð bara að ná mér í Gremlins um daginn þegar það var í boði. Ein af þessum legendary myndum úr æskunni. Ég hafði samt ekki séð hana oft enda kom hún út áður en ég fæddist. Hún virðist bara hafa lifað lengi með æskunni. Ég verð alltaf soldið hræddur við að horfa á myndir sem manni þótti geggjaðar einu sinni og hefur ekki séð síðan maður var áhyggjulaus. Ég varð ekki með vonbrigðum með Gremlins. Það er kannski þess vegna sem henni tókst að lifa lengi.

Myndin fjallar um strák, Billy, sem fær lítinn Mogwai í jólagjöf frá pabba sínum, sem er misheppnaður uppfinningamaður. Mogwai er lítill mjög krúttlegur bangsi (?) og virðist vera hið fullkomna gæludýr. Pabbinn “keypti” það hjá gömlum kínverja í lítilli ruslbúð. Sá gamli sagði að Mogwainn mætti ekki komast í sneritingu við vatn og ekki fá mat eftir miðnætti. Þar sem þetta eru einfaldar reglur hlutu þær að vera brotnar. Mogwainn, sem er kallaður Gismo, fær vatn á sig og við það spýtast nýjir Mogwaiar úr bakinu á honum. Þeir eru meiri hrekkjalómar en sá fyrsti og virðast ekki vera góðhjartaðir. Þeim tekst svo að fá mat eftir miðnætti og þá er fjandinn laus. Þeir breytast úr krúttlegum loðboltum í svarta, grimma púka. Þeir leggja síðan rólega smábæinn í rúst.

Gremlins er uppfull af húmor og þegar Mogwaiarnir eru orðnir svartir þá bregða þeir á hina ýmsu leiki. Þeir taka mörg bíómyndaatriði og púlla fullt af týpum. T.d. fer einn þeirra í síðan baselitaðan frakka og flashar gesti og gangandi, þrátt fyrir að hann sé ekki með neitt til að flasha. Gremlinsarnir eru farnir að skipta þúsundum og Billy verður að stoppa þá. Þá hefst smá spenna en samt er alltaf stutt í húmorinn og myndin verður því smá splatter. Samt svona barna/unglingasplatter, því þetta eru náttúrulega litlir djöflar með grænt blóð að deyja. Einn er t.d. sprengdur í örbylgjuofni.

Ég var lítið að spá í leiknum og það er líklegast af því að hann var bara fínn. Tæknibrellurnar eldast ágætlega og litlu púkarnir eru frekar sannfærandi. Það er líka fyndið að heyra þá muldra einstaka ensk orð.




Ég skil vel að þessi mynd hafi orðið hittari því hún er drulluskemmtileg. Ég sýndi mömmu nokkur brot, en hún sá hana auðvitað á sínum tíma. Hún skemmti sér konunglega og því hefur myndin heldur ekki misst neinn sjarma hvað varðar eldri kynslóðirnar. Ég mæli með þvi fyrir hvern sem er að rifja þessa tímalausu snilld upp.



Þegar ég sá trailerinn hugsaði ég strax að hér væri komin einn ein Hollywood myndin sem snýst bara um aðalleikarann. Í þessu tilfelli er það George Clooney, sem er nottla ein stærsta stjarnan. Ég hafði engan áhuga á að sjá hana. Svo var hún allt í einu tilnefnd til Óskarsverðlauna, algerlega upp úr þurru fyrir mér. Þá athugaði ég með gagnrýni um hana, og hún fékk frábæra dóma. Þá var ekki aftur snúið, ég varð að sjá hana. Sé alls ekki eftir því.

Söguþráðurinn er ekki flókinn, Ryan Bingham(George Clooney) vinnur hjá fyrirtæki sem rekur fólk fyrir önnur fyrirtæki. Hann ferðast mikið og er næstum aldrei heima hjá sér, enda kallar hann flugvöllinn heimili sitt. Flókna atriðið er tilfinningalíf Ryans, en hann heldur að hann sé hamingjusamur með engin tilfinningaleg tengsl við neinn. Hann þráir að komast yfir 10 milljón mílurnar. Sagan snýst um hvernig þessi heimur hans brotnar niður. Að mörgu leyti fyrirséð en einnig margt frumlegt og skemmtilega gert. Heimur Ryans virðist ætla að falla þegar ung kona birtist í fyrirtækinu og vill reka fólk í gegnum internetið. Inn í söguna blandast líka kona sem hann sefur hjá á milli flugferða. Allt sem Ryan metur mest við líf sitt er tekið til athugunar.

George Clooney sýnir stórleik, enda tilnefndur til Óskarsins. Það er líka eins gott fyrir myndina því hún snýst algerlega um leikinn. Up in the Air væri ekkert ef ekki væri fyrir almennilegan leikara. Nú hef ég því sagt einmitt það sem ég hélt um þessa mynd, að hún snerist um George Clooney. En núna meina ég það á góðan hátt, því að hann er góður leikari en ekki bara stjarna með grátt í vöngum.

Lang mest er lagt upp úr persónusköpun Ryans og það hefur eiginlega áhrif á hinar persónurnar. Þær eru algerar hliðarpersónur og gera í rauninni ekkert annað en að rugla í lífi Ryans.

Ég hafði samt mjög gaman af Up in the Air og mæli hiklaust með henni, en það er spurning hversu lengi hún situr eftir hjá manni.



Minni á tvö blog fyrir neðan, um New Moon og Pöntunarbloggið

New Moon (og Twilight)


Nú á ég kærustu sem er einlægur aðdáandi Twilight bókanna. Þegar fyrsta myndin kom út ætlaði hún að fara yfir um af spenningi, líkt og fleiri þúsund kynsystur hennar. Efni bókanna virðist vera ágætt að mörgu leyti, vampírur, varúlfar og unglingar. Það sem fælir stráka frá eru hins vegar ástarmálin sem þessar bækur snúast nær eingöngu um. Ég ætla ekkert að fara að tala um hvað vampírurnar eru ólíkar vampírum sem þekkjast úr öðrum sögum, en þær eru það. Ég hef aldrei lesið bækurnar og get því ekki sagt hversu miklu lélegri myndirnar eru bókunum, en það er eins gott að þær sé miklu miklu miklu lélegri, því annars veit ég ekki hvað stelpur eru yfirhöfuð að pæla í lífinu.

Sagan hefst á því að Bella flytur til pabba síns í lítinn bæ einhver staðar í rigningarsömum Bandaríkjum. Þar hittir hún vampíru að nafni Edward sem er með henni í bekk, en hann getur lesið hugsanir. Samt ekki hennar hugsanir. Þess vegna (eða einhvers vegna) verður hann ástfanginn af henni og hún af honum. Vampírufjölskylda hans hefur heitið því að drekka aldrei mannablóð en samt þráir Edward blóð Bellu ógeðslega mikið. Svo held ég að allar bækurnar snúist um hvernig þau eru ástfangin en mega það samt ekki eða geta það ekki og hún vill verða vampíra en hann vill það ekki og eitthvað meira. Já og svo er annar strákur, Jacob, hrifinn af Bellu en hann er indíáni. Þessir indíánar eru komnir af úlfum og eiga yfirleitt í stríði við vampírurnar, eða fyrirlíta þær allavega. Þetta verður allt rosalegur ástarþríhyrningur og mikið drama.



Það er því nóg af efni til staðar til að gera ágætis bíómynd, það er hasar, ástir og yfirnáttúruleg fyrirbæri. Samt tókst fyrstu myndinni að vera alveg mjög léleg. Ef maður á eitthvað að skilja það sem er að gerast verður maður að vera búinn að lesa bækrunar, eða allavega fá útskýringu. Í bókinni segja persónurnar kannski hluti sem þau meina ekki eða gera eitthvað sem er gegn þeirra vilja, en það er útskýrt á einhvern hátt. Það er alls ekki gert í myndunum. Ég veit ekki alveg hvort þessi “ég þarf að æla” svipbrigði hjá bæði Bellu og Edward eiga að vera einhver rosalegur tilfinningahiti eða bæld ást eða eitthvað. Kristen Stewart er annað hvort ein versta leikkona í heimi eða bara passar engan vegin í þetta hlutverk, og er þá leikstýrt á mjög furðulegan hátt. Það er einmitt aðallega hún sem virðist vera óglatt allan tímann, hún segir voðalega fátt svo maður á sennilega að skynja einhvern tilfinningaofsa sem hamast í henni. Það er mjög langt frá því að takast. Robert Pattinson er nú aðeins skárri, en mér finnst hann bara ekki virka sem einhver tilfinningarík vampíra, það væri betra að hafa hann kaldari týpu held ég.

Það gerist eitthvað í Twilight og Bella og Edward verða ástfanginn og hann bjargar lífi hennar eða eitthvað álíka. Svo kemur New Moon og þá ákveður Edward að fara burt, því hann vill ekki stofna lífi Bellu í hættu. Þannig að öll myndin snýst um hvað Bella er leið yfir þessu og leitar huggunnar hjá Jacob og þau næstumkyssast nokkrum sinnum. Annars gerist ekkert markvert.

Það er eins og einhver hafi ákveðið að taka allt sem var lélegt við fyrstu myndina og setja það bara í mynd nr. 2. Það er ekkert gott við hana. Ég bara eiginlega nenni ekki að tala mikið um það allt, en bókstaflega allt var lélegt. Ég hefði getað gert betri mynd úr þessu. New Moon er ein af 5 lélegustu myndum sem ég hef séð.

Hún er ekki illa gerð að mörgu leyti, það eru ágætis tæknibrellur og gaman að horfa á vampírur og varúlfa berjast. En það er mjög lítið af þvi og það versta er eiginlega að maður veit aldrei alveg hvað er að gerast. Söguþræðinum er svo illa komið til skila að ég varð að spurja nokkrum sinnum hvað í fjandanum væri eiginlega í gangi.

Það eina góða sem ég tek frá myndinni er hvað “úlfagengið” var fáránlega nett. Það eru semsagt þessir indíánastrákar sem breytast í úlfa þegar þeir reiðast eða þurfa að berjast við vampírur. Þeir eru alltaf eitthvað geðveikt kjötaðir á kvartbuxum og berir að ofan úti í skógi. Ég ætla einn daginn að verða þannig, en þangað til ómæli ég eindregið með Twilight og New Moon og næstu myndum.





Færslupöntun

Ég hafði ekki mjög skýra hugmynd um það hvernig kvikmyndagerð yrði í vetur. Maður heyrir alltaf eitthvað mismunandi frá fólki sem var í þessu árin á undan. Svo þegar ég fékk það staðfest að þetta væri ekki próflaus áfangi þá áttaði ég mig á því að námið yrði frekar bóklegt. Það finnst mér helsti gallinn við áfangann. Ég hef heyrt að Ingvi sé ekkert voðalega hrifinn af próflausum valgreinum þannig að það er kannski að mestu við hann að sakast. Mér finnst samt að þegar maður velur kvikmyndagerð er maður að velja áfanga sem snýst um að búa til kvikmyndir. Það er vissulega það sem við erum að læra að mestu leyti, bara fyrir utan söguna held ég, en málið er að það er svo mikið bóklegt. Ég fann vel fyrir því hvað ég kunni í rauninni lítið áður en við tókum upp lokaverkefnið. Maraþonmyndin var að vísu góð til að byrja á og kenndi manni ýmislegt, en það vantaði eitthvað til að fylgja þeirri reynslu eftir. Ég segi að markmiðið verði að búa til fleiri myndir yfir árið, og þá bara stuttar, einmitt eins og auglýsing eða tónlistarmyndband. Það er ekkert slæm hugmynd og mega jafnvel vera 2-3 þannig myndir yfir árið. Þá er mikilvægast held ég að skipta í smærri hópa, kannski bara 3 í hverjum hóp fyrir þessar örmyndir. Bæði í heimildarmyndinni og lokaverkefninu voru svo margir í (mínum allavega) hóp að sumir gerðu lítið sem ekkert, hvort sem þeir vildu eða ekki. Það er bara þannig að 2-3 gera mesta vinnuna. Auðvitað er ekki hægt að ætlast til þess að það séu mest 3 í hóp í lokaverkefninu en það ætti að vera þannig ef gerðar eru örmyndir yfir árið.
Mér finnst tímarnir allt of bóklegir. Ég sá soldið meira fyrir mér að kannski tvöföldu mánudagstímarnir væru verklegir eða einhver sýnikennsla. Þá myndum við prófa mismunandi skot, læra að beita lýsingu á réttan hátt og kannski klippa saman eitthvað. Það er kannski erfitt að láta það endast allan veturinn en hver veit. Ég held að maður muni miklu frekar hvað á að gera eftir að maður hefur prófað það heldur en að lesa bara af glærum. Svo gæti fyrri miðvikudagstíminn verið bóklegur. Eða kannski frekar öfugt ef sýnikennslan nær ekki að endast.
Annars hef ég mjög gaman af áhorfstímanum á miðvikudögum, þó að maður sé oft soldið þreyttur eftir lengsta dag vikunnar og svo kemur maður í myrkvað herbergi. Ég hef alveg þurft að berjast við augnlokin. En það á að halda áfram með þá tíma, alveg klárlega.
Það er auðvitað þægilegt þegar valfag eins og kvikmyndagerð er ekki strangt á skiladögum og öðru slíku. Það mætti samt alveg vera aðeins strangara, eins og með lokaverkefnið. Skiladagur fyrir páska hefði verið þægilegri upp á lærdóm. Maður frestar alltaf ef maður getur frestað, allvega gera það flest ungmenni sem ég þekki. Ekki kannski viljandi, en maður hugsar sér alltaf að þetta reddist bara. Mér fannst samt allt í lagi að hafa sama skiladag hjá öllum hópum. Að vísu setur það meira álaga á myndavélina og klippitölvuna á síðustu dögunum fyrir skil en það gekk alveg vel núna.
Græjurnar komast alveg milli hópa án kennara sem milliliðs því það þekkjast flestir innan fagsins ágætlega. Hitt gæti bara verið meira vesen fyrir báða aðila.
Mér finnst allt í lagi að taka kvikmyndasöguna svona síðast eins og núna, en það er svosem ekkert óvitlaust að tengja hana fyrirlestrunum. En persónulega finnst mér hún mega mæta afgangi.
Það væri alveg gaman að fá stig fyrir komment og myndi eflaust hleypa lífi í bloggið. Endilega láta reyna á það á næsta ári.

Búið að vera mjög skemmtilegt og hápunkturinn var klárlega að gera þessa lokamynd. Hún jók áhuga minn á að gera stuttmyndir mjög mikið. Ég ber líka meiri virðingu fyrir kvikmyndagerðarmönnum því þetta er ekkert lítil vinna sem fer í svona batterí. Ég mæli með kvikmyndagerð sem valfagi við hvern sem er.