Wednesday, December 2, 2009

Up og Star Trek

Ég horfði á Up um daginn, en ég fór ekki á hana í bíó af einhverjum ástæðum óþekktum fyrir mér. Kannski af því ég var ekkert spenntur fyrir þrívíddarfídusnum og áhuginn var þar með lítill. En þessi nýjasta Pixarmynd er hin besta skemmtun.
Í stuttu máli fjallar hún um gamlan mann sem eiginlega gleymdi að láta drauma sína og konu sinnar rætast meðan hún lifði. Hann fær svo nóg af borgarlífinu og flýgur með húsið sitt í leit að draumaveröld sem á að vera einhver staðar í Suður-Ameríku. Lítill, feitur skátakrakki húkkar sér óvart far og eins og við mátti búast þá er þeim gamla illa við krakkann.
Frítt föruneyti
Þegar ég sá fyrsta trailerinn einhvern tíma fyrir löngu þá leist mér sjúklega vel á, en sá sýndi voða fátt annað en þetta blessaða blöðruloftbelgshús. Seinna komu svo fleiri trailerar sem sýndu eitthvað um söguþráðinn og þá fór ég að spá hvort Pixar væru að missa það.. ég meina hversu týpískt er að hafa gamlan, úldinn kall sem líkar ekki við litla, feita strákinn en þeir eru samt fastir saman á einhverju ferðalagi og enda á því að verða vinir eftir að hafa rifist. Það hreinlega hlaut að vera eitthvað sem vægi upp á móti þessu, eins og t.d. í Shrek(reyndar ekki pixar mynd) er alveg sama formúla bara með trölli og litlum asna. Það sem bjargar Shrek er augljóslega hvað asninn er fáránlega fyndinn og orðheppinn, hvað persónusköpunin er skemmtileg og síðast en ekki síst hvað týpískt ævintýri er útfært á grillaðan hátt. En nóg um Shrek.
Pixar eru ekkert búnir að missa það. Þó þetta sé ekki þeirra besta mynd, þá á hún mjög vel heima á þeim háa stalli sem Pixar hafa smíðað undir sig. Up er nefninlega alveg verulega steikt. Maður hlær kannski ekki mjög oft eða mjög upphátt en það er alltaf einhver tilfinning sem fær mann til að glotta og geta ekki hætt því. Ég reyndar hló alveg virkilega mikið og virkilega upphátt þegar kjánahundurinn(Russel hét hann víst) tók fyrsta "SQUIRREL" kippinn. Það kom alveg aftan að mér. Og þessir hundar sem þjónar gæjans.. það var náttúrulega ekki til að minnka steikina. En rúsínan í pylsuendanum var þetta dýr, eiginlega soldið týpískt fyrir Pixar. En nú þýðir týpískt fyrir Pixar einfaldlega frumlegt.
"SQUIRREL" atriðið góða
Það eina sem mér fannst virkilega slappt var brandarinn með skræku röddina hjá aðalvondahundinum, það féll ekki í kramið. En annars bara góð viðbót við geðveikt safn Pixar mynda.


Ég horfði líka á nýju Star Trek myndina um helgina. Ég hef aldrei horft á heilan Star Trek þátt á ævinni en mamma festist einu sinni í þessu og ég sá brot og brot. Það virtist aldrei vera mikið action í þáttunum, í mesta lagi einhver að fela sig bak við stein með leiserbyssu en var svo beam-aður upp í skip. Þess vegna settist ég aldrei niður með mömmu. Þessi virtist hins vegar lofa miklu actioni og geysilega flottum atriðum svo ég fann mig tilneyddan til að gefa henni séns.
Ég get ímyndað mér að þessi mynd sé soldið frábrugðin fyrri myndum að því leyti að hér er mikill hasar og í rauninni skiptir söguþráðurinn eða þekking á Star Trek heiminum ekki máli. Ég var t.d. alveg með á nótunum hvað væri að ske, og fyrir mér gæti þessi mynd alveg verið bara einhver sjálfstæð saga sem var spunnin upp í kringum þessa mynd. En auðvitað þekki ég ekki söguna á bak við allt þetta og það gætu alveg verið einhverjar frábærar/lélegar vísanir og nýjar hliðar á gömlum persónum. Ég veit ekkert um það og hef ekkert kynnt mér það.
Ég býst við að ég sé í meirihluta í þeim efnum og fyrst framleiðendurnir ætluðu að gera svona stóra mynd þá yrðu þeir að hafa eitthvað almennilegt efni fyrir hinn almenna áhorfenda. Það tekst líka vel því myndin er fínasta afþreying og heldur manni spenntum alla leið. Maður elskar Kirk frá upphafi því maður sér að pabbi hans var góður maður, þó eitthvað hafi uppeldið misfarist hjá Kirk. Hann er góður í barfight, fyndinn, gáfaður en er samt alveg sama um allt. Þetta er blanda sem sést ósjaldan í bíómyndum. Svo er Spock þessi reglufasti og rökrétti, sem glímir samt við sín eigin vandamál. Það er því augljóst frá upphafi að þessir tveir munu mynda gott teymi.
Teymið góða, Spock og Kirk
Söguþráðurinn er þannig að James T. Kirk er fenginn(eða ögrað) til að reyna að verða kapteinn í stjörnuflota Jarðar, því pabbi hans hafði verið kapteinn í 12 mínútur og bjargað fjölda lífa. Svo eru einhver þjóðflokkur sem birtist með háþróaða tækni og reynir að gera útaf við samfélag vetrarbrautarinnar. Mjög hasarmyndalegt en allt í lagi.
Skemmtanagildið er allt sem þessi mynd hefur fyrir mig(non-Star Trek fan) og hún hefur helling af því. Hún er mjög flott og fangar augað og eins og ég sagði heldur manni við skjáinn allan tímann. Mæli með henni sem afþreyingu, en ekki ef í leit að stórvirki.

Tuesday, December 1, 2009

Alien

Um daginn horfði ég á Alien og svo Aliens á spólu. Það var í sjálfu sér afrek að koma vídjóinu í samband og fá það til að virka. Hraðspólið afturábak virkaði heldur ekki svo ég varð að spóla hægt og það tók svona hálftíma. En þrautseigjan(lesist þrjóskan) skilaði sínu.
Alien fjallar um áhöfn á flutningageimskipi sem er vakin fyrr úr djúpsvefni vegna neyðarkalls frá órannsakaðri plánetu. Þau lenda á plánetunni og finna stórt ?geimskip? sem virðist alveg líflaust. Einn úr áhöfninni snýr þó til baka í skipið sitt með einhverja lífveru fasta framan í sér. Hann er í dái þangað til veran lætur sig hverfa en þá virðist allt vera í lagi. Stuttu seinna brýst þó geimvera út úr honum við matarborðið. Það er með frægari atriðum kvikmyndasögunnar, enda sjúklega nett. Þá hefst spennandi atburðarás sem svíkur engann þann sem leitar að afþreyingu.
Myndin fylgir aðallega einum meðlimi áhafnarinnar, henni Ripley, sem virðist vera mjög venjuleg kona með sterka rökhugsun.

Ripley á góðum degi
Við sjáum ekki mikið af verunni nema þegar hún er ungi að rífa sig lausa frá mannhýsli sínum. Annars er hún einhver staðar í skipinu að gera það gott og éta einn og einn áhafnarmeðlim. Ripley lendir í útistöðum við einn meðlim áhafnarinnar sem er vélmenni, en hann vill rannsaka veruna og hefur skipanir um það frá tölvu skipsins. Ripley veit hins vegar að það þarf að drepa veruna eða drulla sér sem lengst í burtu.
Brellurnar eru góðar í myndinni en hún fékk einmitt Óskarinn fyrir þær. Það er í rauninni ekki krafist mikils nema að veran sé vel gerð og drápin séu raunveruleg. Það hefur örugglega verið rosalegt að fara á þessa mynd þegar hún kom fyrst út því spennan er byggð upp svo mikið og svo birtist bara einhver drullu raunveruleg vera sem er til í að éta þig. Og já, hún hefur sýru í staðinn fyrir blóð.
Gæða skemmtun fyrir alla sem vilja tryllta spennu sci-fi mynd. Pottþétt!

Aliens gefur fyrri myndinni ekkert eftir, en hér er kominn annar leikstjóri, James Cameron. Hann hafði þá áður gert Terminator, sem er ruddaleg hasarmynd og á það sameiginlegt með Alien að skarta kvennperósnu í aðalhlutverki.
Söguþráðurinn er ekki merkilegur og á í rauninni ekki að vera það. Ripley finnst fyrir einskæra heppni svífandi um geiminn í litla farinu sem hún slapp á í fyrri myndinni, en það eru liðin 57 ár. Menn eru samt ekki á þeim buxunum að trúa Ripley og það er ekki fyrr en allt samband við nýlendu á plánetunni úr fyrri myndinni glatast sem þeir vilja eitthvað með hana hafa. Þá er lagt upp í leiðangur til að tékka á status á nýlendunni. Úrvalslið hermanna skipar stærsta hluta hópsins og bera þau mjög stórar byssur og eru frekar miklar stereotýpur, en það er spurning hvort þessi mynd hafi átt þátt í að móta þessar týpur, ég þekki það ekki nógu vel. Það er líka eitt vélmenni í hópnum og Ripley er ekki á þeim buxunum að treysta því. Actionið fer svo í gang þegar þau lenda á nýlendunni og eiga í erfiðleikum með að komast burt.
Það sem þessi mynd hefur upp á að bjóða er klassa hasar og skemmtilegar persónur. T.d. eru tvær kvennhetjur, Ripley og Vasquez, sem er frekar lesbíuleg, skotóð gella. Hún heldur uppi fjörinu á meðan Ripley er miklu alvarlegri og þarf líka að glíma við karlrembu og yfirvald sem vill henni allt illt.
Ein aðalpersónan er Newt, lítil stelpa sem er eini eftirlifandinn á plánetunni. Hún treystir engum nema Ripley og kannski eins gott, því hún hefur komist af best sjálf. Myndin inniheldur meira magn af verum en fyrsta, sem var bara með eina, en þær eru samt ekkert auðdrepanlegar. "Endakallinn" er líka skuggaleg vera sem ég væri ekki til í að lenda í.
Aftur, klassa hasarmynd sem veldur ekki vonbrigðum, ekki einu sinni rúmum 20 árum eftir að hún kom út.
Newt í ruslageymslunni