Sjitt hvað þetta er epísk mynd. Vá hvað ég fíla hana mikið. Elska lagavalið í henni, þau passa svo vel. Og þá er ég að tala um atriðin þar sem eitthvað classic lag er í gangi og einhver atburður að gerast, eins og t.d. jarðarför Grínistans (The Comedian). Hellidemba, líkkista, allir sorgmæddir og The Sound of Silence með Simon and Garfunkel í botni. Ég fæ gæsahúð í hvert skipti sem ég sé þetta atriði. Maður sér svona smá Tarantino í þessum atriðum. Það sagði mér einhver einhvern tíma að Tarantino hlustaði á tónlistina sína og sæi fyrir sér atriði eftir lögunum, svo býr hann til sögu útfrá þeim. Auðvitað var Watchmen sagan til en þetta er held ég svipuð pæling, það er unnið með og útfrá tónlistinni, og það gerir svo ótrúlega mikið fyrir atriðið. Dæmi um þetta frá Tarantino eru í öllum myndunum, en ég hugsa strax um þegar Mr. Blonde(held ég að hann hafi heitið) sker eyrað af löggunni og ætlar svo að brenna hann. Byrjunaratriðið er líka svona, þegar þeir labba allir saman niður götuna með Little Green Bag undir. Pulp Fiction snýst eiginlega líka bara um svona atriði.
Ef ég geri einhvern tíma mynd í fullri lengd þá byggi ég hana klárlega á nokkrum svona atriðum.
Ég nenni nú varla að þylja upp mikið um söguþráðinn en sagan gerist árið 1985 í heimi þar sem Bandaríkjamenn unnu Víetnam og ofurhetjur eru “raunverulegar”. Það er samt bara einn maður með ofurkrafta, Dr. Manhattan, en hann er eiginlega bara guð og algert svindl, því hann getur allt og veit flest. Allir hinir eru bara góðir að slást og fara í flotta búninga. Þeirra tími er hins vegar liðinn og eini sem er ennþá virkur er Rorschach, en hann er nett geðbilaður. Hann heldur að einhver sé að drepa fyrrverandi ofurhetjurnar en undirliggjandi er alltaf sagan um kalda stríðið og kjarnorkuógnina.
Watchmen er grimmileg írónía og samfélagsgagnrýni, en myndasagan er víst eina myndasagan á einhverjum lista yfir 100 bestu bækur 20. aldarinnar. Myndin kemur þessari kaldhæðni vel til skila en ég ætla ekki að þræða það neitt frekar, enda ekki maðurinn í það.
Persónurnar eru frábærar, og bestur er klárlega Rorschach. Hann er grimmasti góði gæi sem hugsast getur, réttlæti er það eina sem hann hugsar um. Hann er Chaotic Good, engin miskunn, engin hvíld. Hann sagði sjálfur, hann er ekki lengur sá sem hann fæddist sem, sá maður er horfinn, eina sem er eftir er Rorschach. Svo er hann líka með svo netta rödd, ótrúlegt að lítill rauðhærður gæi sé með nettustu, grimmustu og skelfilegustu rödd í heimi. Hann á allar flottu setningar myndarinnar. Geggjaður karakter.
Dr. Manhattan var venjulegur eðlisfræðingur sem festist í einhverjum geislum á tilraunastofu og sprakk. Hann reformaði sem blár gæi sem getur allt, hreyft hluti með huganum, teleportað, séð fortíð og framtíð sína og bara allt sem hugsast getur. Eftir það notaði Bandaríkjastjórn hann til að vinna Víetnam og halda Sovétmönnum í skefjum, því hann getur stoppað kjarnorkusprengjurnar. Hann er þó hættur að finna til með mannfólkinu og fjarlægist alla.
Ozymandias er gáfaðasti maður jarðarinnar og var sá eini af Watchmen-unum sem kom fram undir réttu nafni þegar þau hættu. Hann græddi endalaust á því og vinnur nú að því að finna endalausa orku fyrir mannkynið.
The Comedian er líka frábær karakter. Gersamlega hugsunarlaus gaur sem vill greinilega bara hasarinn. Hann var í fyrstu grúppunum sem fóru út grímuklædd og börðust gegn glæpum, en hann deyr strax í byrjun. Í flashback-um sést hann bara drepa óléttar konur og asíubúa, og jafnvel ameríkana. Svo er spurningin hvort hann sá eftir þessu öllu eða ekki.
Það er mikið verk að skirfa um alla hina í myndinni en allir þeirra bæta hana á sinn sérstaka hátt.
Sambland af húmor, hasar, samfélagsgagnrýni og almennum töffaraskap gera þessa mannlegu ofurhetjumynd svo geggjaða skemmtun að orð fá því ekki lýst. Ég held ég hafi horft svona 5 sinnum á hana, og hún kom út í fyrra. Reyndar ekki alla í einu alltaf því hún er næstum 3 tímar, en ég veit ekki hvernig hún ætti að vera styttri.
Mér fannst þessi nokkuð skemmtileg, og margt mjög flott í henni. Upphafssenan þar sem the Comedian er drepinn er t.d. mjög flott.
ReplyDelete8 stig.