Friday, April 16, 2010

New Moon (og Twilight)


Nú á ég kærustu sem er einlægur aðdáandi Twilight bókanna. Þegar fyrsta myndin kom út ætlaði hún að fara yfir um af spenningi, líkt og fleiri þúsund kynsystur hennar. Efni bókanna virðist vera ágætt að mörgu leyti, vampírur, varúlfar og unglingar. Það sem fælir stráka frá eru hins vegar ástarmálin sem þessar bækur snúast nær eingöngu um. Ég ætla ekkert að fara að tala um hvað vampírurnar eru ólíkar vampírum sem þekkjast úr öðrum sögum, en þær eru það. Ég hef aldrei lesið bækurnar og get því ekki sagt hversu miklu lélegri myndirnar eru bókunum, en það er eins gott að þær sé miklu miklu miklu lélegri, því annars veit ég ekki hvað stelpur eru yfirhöfuð að pæla í lífinu.

Sagan hefst á því að Bella flytur til pabba síns í lítinn bæ einhver staðar í rigningarsömum Bandaríkjum. Þar hittir hún vampíru að nafni Edward sem er með henni í bekk, en hann getur lesið hugsanir. Samt ekki hennar hugsanir. Þess vegna (eða einhvers vegna) verður hann ástfanginn af henni og hún af honum. Vampírufjölskylda hans hefur heitið því að drekka aldrei mannablóð en samt þráir Edward blóð Bellu ógeðslega mikið. Svo held ég að allar bækurnar snúist um hvernig þau eru ástfangin en mega það samt ekki eða geta það ekki og hún vill verða vampíra en hann vill það ekki og eitthvað meira. Já og svo er annar strákur, Jacob, hrifinn af Bellu en hann er indíáni. Þessir indíánar eru komnir af úlfum og eiga yfirleitt í stríði við vampírurnar, eða fyrirlíta þær allavega. Þetta verður allt rosalegur ástarþríhyrningur og mikið drama.



Það er því nóg af efni til staðar til að gera ágætis bíómynd, það er hasar, ástir og yfirnáttúruleg fyrirbæri. Samt tókst fyrstu myndinni að vera alveg mjög léleg. Ef maður á eitthvað að skilja það sem er að gerast verður maður að vera búinn að lesa bækrunar, eða allavega fá útskýringu. Í bókinni segja persónurnar kannski hluti sem þau meina ekki eða gera eitthvað sem er gegn þeirra vilja, en það er útskýrt á einhvern hátt. Það er alls ekki gert í myndunum. Ég veit ekki alveg hvort þessi “ég þarf að æla” svipbrigði hjá bæði Bellu og Edward eiga að vera einhver rosalegur tilfinningahiti eða bæld ást eða eitthvað. Kristen Stewart er annað hvort ein versta leikkona í heimi eða bara passar engan vegin í þetta hlutverk, og er þá leikstýrt á mjög furðulegan hátt. Það er einmitt aðallega hún sem virðist vera óglatt allan tímann, hún segir voðalega fátt svo maður á sennilega að skynja einhvern tilfinningaofsa sem hamast í henni. Það er mjög langt frá því að takast. Robert Pattinson er nú aðeins skárri, en mér finnst hann bara ekki virka sem einhver tilfinningarík vampíra, það væri betra að hafa hann kaldari týpu held ég.

Það gerist eitthvað í Twilight og Bella og Edward verða ástfanginn og hann bjargar lífi hennar eða eitthvað álíka. Svo kemur New Moon og þá ákveður Edward að fara burt, því hann vill ekki stofna lífi Bellu í hættu. Þannig að öll myndin snýst um hvað Bella er leið yfir þessu og leitar huggunnar hjá Jacob og þau næstumkyssast nokkrum sinnum. Annars gerist ekkert markvert.

Það er eins og einhver hafi ákveðið að taka allt sem var lélegt við fyrstu myndina og setja það bara í mynd nr. 2. Það er ekkert gott við hana. Ég bara eiginlega nenni ekki að tala mikið um það allt, en bókstaflega allt var lélegt. Ég hefði getað gert betri mynd úr þessu. New Moon er ein af 5 lélegustu myndum sem ég hef séð.

Hún er ekki illa gerð að mörgu leyti, það eru ágætis tæknibrellur og gaman að horfa á vampírur og varúlfa berjast. En það er mjög lítið af þvi og það versta er eiginlega að maður veit aldrei alveg hvað er að gerast. Söguþræðinum er svo illa komið til skila að ég varð að spurja nokkrum sinnum hvað í fjandanum væri eiginlega í gangi.

Það eina góða sem ég tek frá myndinni er hvað “úlfagengið” var fáránlega nett. Það eru semsagt þessir indíánastrákar sem breytast í úlfa þegar þeir reiðast eða þurfa að berjast við vampírur. Þeir eru alltaf eitthvað geðveikt kjötaðir á kvartbuxum og berir að ofan úti í skógi. Ég ætla einn daginn að verða þannig, en þangað til ómæli ég eindregið með Twilight og New Moon og næstu myndum.





1 comment: