Ég hafði ekki mjög skýra hugmynd um það hvernig kvikmyndagerð yrði í vetur. Maður heyrir alltaf eitthvað mismunandi frá fólki sem var í þessu árin á undan. Svo þegar ég fékk það staðfest að þetta væri ekki próflaus áfangi þá áttaði ég mig á því að námið yrði frekar bóklegt. Það finnst mér helsti gallinn við áfangann. Ég hef heyrt að Ingvi sé ekkert voðalega hrifinn af próflausum valgreinum þannig að það er kannski að mestu við hann að sakast. Mér finnst samt að þegar maður velur kvikmyndagerð er maður að velja áfanga sem snýst um að búa til kvikmyndir. Það er vissulega það sem við erum að læra að mestu leyti, bara fyrir utan söguna held ég, en málið er að það er svo mikið bóklegt. Ég fann vel fyrir því hvað ég kunni í rauninni lítið áður en við tókum upp lokaverkefnið. Maraþonmyndin var að vísu góð til að byrja á og kenndi manni ýmislegt, en það vantaði eitthvað til að fylgja þeirri reynslu eftir. Ég segi að markmiðið verði að búa til fleiri myndir yfir árið, og þá bara stuttar, einmitt eins og auglýsing eða tónlistarmyndband. Það er ekkert slæm hugmynd og mega jafnvel vera 2-3 þannig myndir yfir árið. Þá er mikilvægast held ég að skipta í smærri hópa, kannski bara 3 í hverjum hóp fyrir þessar örmyndir. Bæði í heimildarmyndinni og lokaverkefninu voru svo margir í (mínum allavega) hóp að sumir gerðu lítið sem ekkert, hvort sem þeir vildu eða ekki. Það er bara þannig að 2-3 gera mesta vinnuna. Auðvitað er ekki hægt að ætlast til þess að það séu mest 3 í hóp í lokaverkefninu en það ætti að vera þannig ef gerðar eru örmyndir yfir árið.
Mér finnst tímarnir allt of bóklegir. Ég sá soldið meira fyrir mér að kannski tvöföldu mánudagstímarnir væru verklegir eða einhver sýnikennsla. Þá myndum við prófa mismunandi skot, læra að beita lýsingu á réttan hátt og kannski klippa saman eitthvað. Það er kannski erfitt að láta það endast allan veturinn en hver veit. Ég held að maður muni miklu frekar hvað á að gera eftir að maður hefur prófað það heldur en að lesa bara af glærum. Svo gæti fyrri miðvikudagstíminn verið bóklegur. Eða kannski frekar öfugt ef sýnikennslan nær ekki að endast.
Annars hef ég mjög gaman af áhorfstímanum á miðvikudögum, þó að maður sé oft soldið þreyttur eftir lengsta dag vikunnar og svo kemur maður í myrkvað herbergi. Ég hef alveg þurft að berjast við augnlokin. En það á að halda áfram með þá tíma, alveg klárlega.
Það er auðvitað þægilegt þegar valfag eins og kvikmyndagerð er ekki strangt á skiladögum og öðru slíku. Það mætti samt alveg vera aðeins strangara, eins og með lokaverkefnið. Skiladagur fyrir páska hefði verið þægilegri upp á lærdóm. Maður frestar alltaf ef maður getur frestað, allvega gera það flest ungmenni sem ég þekki. Ekki kannski viljandi, en maður hugsar sér alltaf að þetta reddist bara. Mér fannst samt allt í lagi að hafa sama skiladag hjá öllum hópum. Að vísu setur það meira álaga á myndavélina og klippitölvuna á síðustu dögunum fyrir skil en það gekk alveg vel núna.
Græjurnar komast alveg milli hópa án kennara sem milliliðs því það þekkjast flestir innan fagsins ágætlega. Hitt gæti bara verið meira vesen fyrir báða aðila.
Mér finnst allt í lagi að taka kvikmyndasöguna svona síðast eins og núna, en það er svosem ekkert óvitlaust að tengja hana fyrirlestrunum. En persónulega finnst mér hún mega mæta afgangi.
Það væri alveg gaman að fá stig fyrir komment og myndi eflaust hleypa lífi í bloggið. Endilega láta reyna á það á næsta ári.
Búið að vera mjög skemmtilegt og hápunkturinn var klárlega að gera þessa lokamynd. Hún jók áhuga minn á að gera stuttmyndir mjög mikið. Ég ber líka meiri virðingu fyrir kvikmyndagerðarmönnum því þetta er ekkert lítil vinna sem fer í svona batterí. Ég mæli með kvikmyndagerð sem valfagi við hvern sem er.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
Fínar athugasemdir. Mig langar til þess að minnka powerpoint-sýningarnar og hafa meira hands-on, en einhvern veginn er það alltaf þannig að þegar maður hefur lítinn tíma þá dettur maður í það sem maður þekkir...
ReplyDelete10 stig.