Thursday, October 15, 2009

Arrested Development


Nú veit ég ekki hvort það er mikið um þáttaraðagagnrýni í kvikmyndagerð, en ég er mikið fyrir þætti, þeir eru stuttir og gott að skella einum í gang meðan maður borðar eða eitthvað eftir skóla.
Arrested Development eru klárlega uppáhalds þættirnir mínir. Ég gæti ekki valið þætti í annað sæti, en það skiptir ekki máli, þessir eru bestir. Ég hreinlega man ekki af hverju ég byjaði að horfa á AD, hvort þeir voru á skjá einum eða eitthvað. En nú á ég allar seríurnar og dett öðru hverju í hálfgert maraþon þar sem ég tek eina seríu á 3 dögum eða svo. Af einhverjum óhimneskum ástæðum var hætt að framleiða þá eftir 3 seríu.
Það sem gerir þessa þætti þá bestu er klárlega persónusköpunin. Það er einn venjulegur karakter og allir hinir eru létt eða vel geggjaðir. Sá maður er aðalpersónan, Michael Bluth. Hann er tæplega fertugur ekkill með einn sirka 16 ára son, George Michael Bluth. Michael vinnur í fyrirtæki pabba síns og er langduglegasti og gáfaðasti starfsmaðurinn. Í fyrsta þættinum er pabbi hans, George Bluth Sr., handtekinn og Michael eiginlega neyðist til að taka yfir stjórn fyrirtækisins til þess að bjarga fjölskyldunni. Fjölskyldan hefur ekki verið öll saman lengi en Michael hatar fátt meira en þau öll saman. Hann ætlar að komast burt frá þeim en eins og áður sagði, neyðist hann til að bjarga þeim.
Það er erfitt að segja hver er mesta keisið í fjölskyldunni því hver er öðrum skrýtnari. Michael á tvo bræður, Gob og Buster. Gob er elstur en alls ekki vitrastur. Hann er misheppnaður töframaður sem er ófær um að framkvæma einföldustu verkefni. Gob hefur aldrei unnið handtak á ævinni, heldur lifað á peningum fjölskyldunnar úr fyrirtækinu. Hann fær hverja asnalegu hugmyndina á eftir annari.

Buster er yngsta systkinið og alveg einstakur. Hann býr ennþá með mömmu sinni, og hún er alveg nógu klikkuð til að losa aldrei greiparnar af honum. Buster er ..tja.. innhverfur og veit ekkert hvernig á að lifa lífinu. Það er mjög erfitt að lýsa honum, en hann er bara stórfurðulegur.
Tvíburasystir Michaels heitir Lindsay. Hún hefur mjög litla samvisku og nýtir það til að safna pening með góðgerðarsamkomum, t.d. til verndar náttúrunni. Samt er henni alveg sama, en hún reynir stundum að blekkja sig um að svo sé ekki. Hún á eina dóttur, Maybe, sem hefur fengið takmarkað uppeldi og er mjög sjálfstæð. Hún er jafn gömul og George Michael en óskar þess að vera fullorðin. Hún er prakkari og gerir það sem henni sýnist. Helsta ástæða þess að uppeldi Maybe fór úrskeiðis er faðir hennar, Tobias Fünke.
Tobias er, eins og búist er við, eiginmaður Lindsay þó hann sé eiginlega meiri kelling en hún. Hann er klárlega fyndnasti karakterinn og allt sem hann segir er fyndið. Hann er menntaður held ég sálfræðingur en missti leyfið stuttu áður en söguþráðurinn hefst. Þá finnur hann sér nýja köllun, að vera leikari. Það klikkar aldrei þegar hann tekur atriði sem hann reynir að fá í áheyrnarprufum. Síðar sækir hann um í “The Blueman Group” en fær aldrei inngöngu. Samt málar hann sig iðulega bláan í von um þeir skildu hringja. Þrátt fyrir að reyna að vera venjulegur tekst honum alltaf að koma sér í vandræðalegar aðstæður með fáránlegum misskilningi. Svo er hann líka “nevernude” og er því alltaf í gallastuttbuxum innst, líka í sturtu. Leikarinn, David Cross, sýnir stjörnuleik í hverjum þætti og virðist vera sniðinn fyrir hlutverkið. Maður sér angistina og vandræðaleikann skína úr augunum hans og skallinn gerir bara gott betra. Hjónaband Tobiasar og Lindsayar er í molum og þau geta ekki ákveðið sig hvort þau vilji skilja eða ekki.

Tobias Fünke
Foreldrar Michaels er George og Lucille Bluth. Hjónaband þeirra er furðulegt en oftast virðist Lucille bara vera með George útaf peningunum. Á móti heldur George oft framhjá konu sinni. Þau taka þó stutt tímabil inn á milli þar sem þau eru “madly in love”. George á líka tvíburabróður sem kemur inn í þættina seinna þegar George er í fangelsi.
George Michael Bluth er sonur Michaels og líkist föður sínum að mörgu leyti. Hann er næst venjulegastur af öllum í fjölskyldunni en á samt við ýmis vandamál að stríða. Hann er virkilega feiminn og lætur undan þrýstingi. Í fyrsta þættinum fer hann í sleik við frænku sína, Maybe, og verður strax ástfanginn af henni. Sá brandari endist í gegnum alla þættina og þreytist ekki. George Michael er virkilega vandræðalegur og stressaður gæi, en samt á miklu venjulegri hátt en Tobias. Leikarinn, Michael Cera, er orðinn frægur í Hollywood leikari og leikur yfirleitt persónur sem líkjast á margan hátt George Michael.
Húmorinn í þáttunum snýst mikið um eiginleika persónanna og tekur því smá stund að komast inn í þá. Djókarnir eru ekki týpískir fyrir bandarískar sid-coms og það besta er að það er enginn “dósahlátur”, enda væri salurinn í kasti allan þáttinn. Hvert augnablik á að vera fyndið, og er það.

Ég hef ekki mikið vit á handritaskrifum en mér finnst AD alveg frábærlega skrifaðir þættir. Brandarar sem koma í fyrri þáttum eru oft endurvaktir og nýjum breytum bætt við. Allt einhvern vegin bara smellur saman.
Síðan þáttunum var cancellað í USA hefur verið bíómynd í bígerð. Mér skilst að vandamálið liggi í að fá leikarana til að taka þátt í henni. Ég vona innilega að bíómyndin verði að veruleika og þá verða sennilega allir lausir endar hnýttir eftir lok 3. seríu.

2 comments:

  1. Án alls vafa fyndnustu þættir sem ég hef séð!

    ReplyDelete
  2. Hiklaust með bestu gamanþáttum allra tíma! Og svo kom í fréttum um daginn að myndin er ON, allir leikararnir eru búnir að samþykkja.

    Ótrúleg dýpt, bæði í persónusköpun og bröndurum. Það sem gerir þessa þætti svo "rewatchable" er að maður kemur alltaf auga á nýja og nýja brandara...
    Hiklaust þættir sem maður þarf að setja sig inn í. Ég held ég hafi alveg horft á 2-3 þætti áður en ég áttaði mig á hversu mikil snilld þeir eru.

    Allt í fína að skrifa um þáttaraðir. Og frekar góð færsla. 7 stig.

    ReplyDelete