Friday, April 16, 2010

Gremlins og Up in the Air


Varð bara að ná mér í Gremlins um daginn þegar það var í boði. Ein af þessum legendary myndum úr æskunni. Ég hafði samt ekki séð hana oft enda kom hún út áður en ég fæddist. Hún virðist bara hafa lifað lengi með æskunni. Ég verð alltaf soldið hræddur við að horfa á myndir sem manni þótti geggjaðar einu sinni og hefur ekki séð síðan maður var áhyggjulaus. Ég varð ekki með vonbrigðum með Gremlins. Það er kannski þess vegna sem henni tókst að lifa lengi.

Myndin fjallar um strák, Billy, sem fær lítinn Mogwai í jólagjöf frá pabba sínum, sem er misheppnaður uppfinningamaður. Mogwai er lítill mjög krúttlegur bangsi (?) og virðist vera hið fullkomna gæludýr. Pabbinn “keypti” það hjá gömlum kínverja í lítilli ruslbúð. Sá gamli sagði að Mogwainn mætti ekki komast í sneritingu við vatn og ekki fá mat eftir miðnætti. Þar sem þetta eru einfaldar reglur hlutu þær að vera brotnar. Mogwainn, sem er kallaður Gismo, fær vatn á sig og við það spýtast nýjir Mogwaiar úr bakinu á honum. Þeir eru meiri hrekkjalómar en sá fyrsti og virðast ekki vera góðhjartaðir. Þeim tekst svo að fá mat eftir miðnætti og þá er fjandinn laus. Þeir breytast úr krúttlegum loðboltum í svarta, grimma púka. Þeir leggja síðan rólega smábæinn í rúst.

Gremlins er uppfull af húmor og þegar Mogwaiarnir eru orðnir svartir þá bregða þeir á hina ýmsu leiki. Þeir taka mörg bíómyndaatriði og púlla fullt af týpum. T.d. fer einn þeirra í síðan baselitaðan frakka og flashar gesti og gangandi, þrátt fyrir að hann sé ekki með neitt til að flasha. Gremlinsarnir eru farnir að skipta þúsundum og Billy verður að stoppa þá. Þá hefst smá spenna en samt er alltaf stutt í húmorinn og myndin verður því smá splatter. Samt svona barna/unglingasplatter, því þetta eru náttúrulega litlir djöflar með grænt blóð að deyja. Einn er t.d. sprengdur í örbylgjuofni.

Ég var lítið að spá í leiknum og það er líklegast af því að hann var bara fínn. Tæknibrellurnar eldast ágætlega og litlu púkarnir eru frekar sannfærandi. Það er líka fyndið að heyra þá muldra einstaka ensk orð.




Ég skil vel að þessi mynd hafi orðið hittari því hún er drulluskemmtileg. Ég sýndi mömmu nokkur brot, en hún sá hana auðvitað á sínum tíma. Hún skemmti sér konunglega og því hefur myndin heldur ekki misst neinn sjarma hvað varðar eldri kynslóðirnar. Ég mæli með þvi fyrir hvern sem er að rifja þessa tímalausu snilld upp.



Þegar ég sá trailerinn hugsaði ég strax að hér væri komin einn ein Hollywood myndin sem snýst bara um aðalleikarann. Í þessu tilfelli er það George Clooney, sem er nottla ein stærsta stjarnan. Ég hafði engan áhuga á að sjá hana. Svo var hún allt í einu tilnefnd til Óskarsverðlauna, algerlega upp úr þurru fyrir mér. Þá athugaði ég með gagnrýni um hana, og hún fékk frábæra dóma. Þá var ekki aftur snúið, ég varð að sjá hana. Sé alls ekki eftir því.

Söguþráðurinn er ekki flókinn, Ryan Bingham(George Clooney) vinnur hjá fyrirtæki sem rekur fólk fyrir önnur fyrirtæki. Hann ferðast mikið og er næstum aldrei heima hjá sér, enda kallar hann flugvöllinn heimili sitt. Flókna atriðið er tilfinningalíf Ryans, en hann heldur að hann sé hamingjusamur með engin tilfinningaleg tengsl við neinn. Hann þráir að komast yfir 10 milljón mílurnar. Sagan snýst um hvernig þessi heimur hans brotnar niður. Að mörgu leyti fyrirséð en einnig margt frumlegt og skemmtilega gert. Heimur Ryans virðist ætla að falla þegar ung kona birtist í fyrirtækinu og vill reka fólk í gegnum internetið. Inn í söguna blandast líka kona sem hann sefur hjá á milli flugferða. Allt sem Ryan metur mest við líf sitt er tekið til athugunar.

George Clooney sýnir stórleik, enda tilnefndur til Óskarsins. Það er líka eins gott fyrir myndina því hún snýst algerlega um leikinn. Up in the Air væri ekkert ef ekki væri fyrir almennilegan leikara. Nú hef ég því sagt einmitt það sem ég hélt um þessa mynd, að hún snerist um George Clooney. En núna meina ég það á góðan hátt, því að hann er góður leikari en ekki bara stjarna með grátt í vöngum.

Lang mest er lagt upp úr persónusköpun Ryans og það hefur eiginlega áhrif á hinar persónurnar. Þær eru algerar hliðarpersónur og gera í rauninni ekkert annað en að rugla í lífi Ryans.

Ég hafði samt mjög gaman af Up in the Air og mæli hiklaust með henni, en það er spurning hversu lengi hún situr eftir hjá manni.



Minni á tvö blog fyrir neðan, um New Moon og Pöntunarbloggið

New Moon (og Twilight)


Nú á ég kærustu sem er einlægur aðdáandi Twilight bókanna. Þegar fyrsta myndin kom út ætlaði hún að fara yfir um af spenningi, líkt og fleiri þúsund kynsystur hennar. Efni bókanna virðist vera ágætt að mörgu leyti, vampírur, varúlfar og unglingar. Það sem fælir stráka frá eru hins vegar ástarmálin sem þessar bækur snúast nær eingöngu um. Ég ætla ekkert að fara að tala um hvað vampírurnar eru ólíkar vampírum sem þekkjast úr öðrum sögum, en þær eru það. Ég hef aldrei lesið bækurnar og get því ekki sagt hversu miklu lélegri myndirnar eru bókunum, en það er eins gott að þær sé miklu miklu miklu lélegri, því annars veit ég ekki hvað stelpur eru yfirhöfuð að pæla í lífinu.

Sagan hefst á því að Bella flytur til pabba síns í lítinn bæ einhver staðar í rigningarsömum Bandaríkjum. Þar hittir hún vampíru að nafni Edward sem er með henni í bekk, en hann getur lesið hugsanir. Samt ekki hennar hugsanir. Þess vegna (eða einhvers vegna) verður hann ástfanginn af henni og hún af honum. Vampírufjölskylda hans hefur heitið því að drekka aldrei mannablóð en samt þráir Edward blóð Bellu ógeðslega mikið. Svo held ég að allar bækurnar snúist um hvernig þau eru ástfangin en mega það samt ekki eða geta það ekki og hún vill verða vampíra en hann vill það ekki og eitthvað meira. Já og svo er annar strákur, Jacob, hrifinn af Bellu en hann er indíáni. Þessir indíánar eru komnir af úlfum og eiga yfirleitt í stríði við vampírurnar, eða fyrirlíta þær allavega. Þetta verður allt rosalegur ástarþríhyrningur og mikið drama.



Það er því nóg af efni til staðar til að gera ágætis bíómynd, það er hasar, ástir og yfirnáttúruleg fyrirbæri. Samt tókst fyrstu myndinni að vera alveg mjög léleg. Ef maður á eitthvað að skilja það sem er að gerast verður maður að vera búinn að lesa bækrunar, eða allavega fá útskýringu. Í bókinni segja persónurnar kannski hluti sem þau meina ekki eða gera eitthvað sem er gegn þeirra vilja, en það er útskýrt á einhvern hátt. Það er alls ekki gert í myndunum. Ég veit ekki alveg hvort þessi “ég þarf að æla” svipbrigði hjá bæði Bellu og Edward eiga að vera einhver rosalegur tilfinningahiti eða bæld ást eða eitthvað. Kristen Stewart er annað hvort ein versta leikkona í heimi eða bara passar engan vegin í þetta hlutverk, og er þá leikstýrt á mjög furðulegan hátt. Það er einmitt aðallega hún sem virðist vera óglatt allan tímann, hún segir voðalega fátt svo maður á sennilega að skynja einhvern tilfinningaofsa sem hamast í henni. Það er mjög langt frá því að takast. Robert Pattinson er nú aðeins skárri, en mér finnst hann bara ekki virka sem einhver tilfinningarík vampíra, það væri betra að hafa hann kaldari týpu held ég.

Það gerist eitthvað í Twilight og Bella og Edward verða ástfanginn og hann bjargar lífi hennar eða eitthvað álíka. Svo kemur New Moon og þá ákveður Edward að fara burt, því hann vill ekki stofna lífi Bellu í hættu. Þannig að öll myndin snýst um hvað Bella er leið yfir þessu og leitar huggunnar hjá Jacob og þau næstumkyssast nokkrum sinnum. Annars gerist ekkert markvert.

Það er eins og einhver hafi ákveðið að taka allt sem var lélegt við fyrstu myndina og setja það bara í mynd nr. 2. Það er ekkert gott við hana. Ég bara eiginlega nenni ekki að tala mikið um það allt, en bókstaflega allt var lélegt. Ég hefði getað gert betri mynd úr þessu. New Moon er ein af 5 lélegustu myndum sem ég hef séð.

Hún er ekki illa gerð að mörgu leyti, það eru ágætis tæknibrellur og gaman að horfa á vampírur og varúlfa berjast. En það er mjög lítið af þvi og það versta er eiginlega að maður veit aldrei alveg hvað er að gerast. Söguþræðinum er svo illa komið til skila að ég varð að spurja nokkrum sinnum hvað í fjandanum væri eiginlega í gangi.

Það eina góða sem ég tek frá myndinni er hvað “úlfagengið” var fáránlega nett. Það eru semsagt þessir indíánastrákar sem breytast í úlfa þegar þeir reiðast eða þurfa að berjast við vampírur. Þeir eru alltaf eitthvað geðveikt kjötaðir á kvartbuxum og berir að ofan úti í skógi. Ég ætla einn daginn að verða þannig, en þangað til ómæli ég eindregið með Twilight og New Moon og næstu myndum.





Færslupöntun

Ég hafði ekki mjög skýra hugmynd um það hvernig kvikmyndagerð yrði í vetur. Maður heyrir alltaf eitthvað mismunandi frá fólki sem var í þessu árin á undan. Svo þegar ég fékk það staðfest að þetta væri ekki próflaus áfangi þá áttaði ég mig á því að námið yrði frekar bóklegt. Það finnst mér helsti gallinn við áfangann. Ég hef heyrt að Ingvi sé ekkert voðalega hrifinn af próflausum valgreinum þannig að það er kannski að mestu við hann að sakast. Mér finnst samt að þegar maður velur kvikmyndagerð er maður að velja áfanga sem snýst um að búa til kvikmyndir. Það er vissulega það sem við erum að læra að mestu leyti, bara fyrir utan söguna held ég, en málið er að það er svo mikið bóklegt. Ég fann vel fyrir því hvað ég kunni í rauninni lítið áður en við tókum upp lokaverkefnið. Maraþonmyndin var að vísu góð til að byrja á og kenndi manni ýmislegt, en það vantaði eitthvað til að fylgja þeirri reynslu eftir. Ég segi að markmiðið verði að búa til fleiri myndir yfir árið, og þá bara stuttar, einmitt eins og auglýsing eða tónlistarmyndband. Það er ekkert slæm hugmynd og mega jafnvel vera 2-3 þannig myndir yfir árið. Þá er mikilvægast held ég að skipta í smærri hópa, kannski bara 3 í hverjum hóp fyrir þessar örmyndir. Bæði í heimildarmyndinni og lokaverkefninu voru svo margir í (mínum allavega) hóp að sumir gerðu lítið sem ekkert, hvort sem þeir vildu eða ekki. Það er bara þannig að 2-3 gera mesta vinnuna. Auðvitað er ekki hægt að ætlast til þess að það séu mest 3 í hóp í lokaverkefninu en það ætti að vera þannig ef gerðar eru örmyndir yfir árið.
Mér finnst tímarnir allt of bóklegir. Ég sá soldið meira fyrir mér að kannski tvöföldu mánudagstímarnir væru verklegir eða einhver sýnikennsla. Þá myndum við prófa mismunandi skot, læra að beita lýsingu á réttan hátt og kannski klippa saman eitthvað. Það er kannski erfitt að láta það endast allan veturinn en hver veit. Ég held að maður muni miklu frekar hvað á að gera eftir að maður hefur prófað það heldur en að lesa bara af glærum. Svo gæti fyrri miðvikudagstíminn verið bóklegur. Eða kannski frekar öfugt ef sýnikennslan nær ekki að endast.
Annars hef ég mjög gaman af áhorfstímanum á miðvikudögum, þó að maður sé oft soldið þreyttur eftir lengsta dag vikunnar og svo kemur maður í myrkvað herbergi. Ég hef alveg þurft að berjast við augnlokin. En það á að halda áfram með þá tíma, alveg klárlega.
Það er auðvitað þægilegt þegar valfag eins og kvikmyndagerð er ekki strangt á skiladögum og öðru slíku. Það mætti samt alveg vera aðeins strangara, eins og með lokaverkefnið. Skiladagur fyrir páska hefði verið þægilegri upp á lærdóm. Maður frestar alltaf ef maður getur frestað, allvega gera það flest ungmenni sem ég þekki. Ekki kannski viljandi, en maður hugsar sér alltaf að þetta reddist bara. Mér fannst samt allt í lagi að hafa sama skiladag hjá öllum hópum. Að vísu setur það meira álaga á myndavélina og klippitölvuna á síðustu dögunum fyrir skil en það gekk alveg vel núna.
Græjurnar komast alveg milli hópa án kennara sem milliliðs því það þekkjast flestir innan fagsins ágætlega. Hitt gæti bara verið meira vesen fyrir báða aðila.
Mér finnst allt í lagi að taka kvikmyndasöguna svona síðast eins og núna, en það er svosem ekkert óvitlaust að tengja hana fyrirlestrunum. En persónulega finnst mér hún mega mæta afgangi.
Það væri alveg gaman að fá stig fyrir komment og myndi eflaust hleypa lífi í bloggið. Endilega láta reyna á það á næsta ári.

Búið að vera mjög skemmtilegt og hápunkturinn var klárlega að gera þessa lokamynd. Hún jók áhuga minn á að gera stuttmyndir mjög mikið. Ég ber líka meiri virðingu fyrir kvikmyndagerðarmönnum því þetta er ekkert lítil vinna sem fer í svona batterí. Ég mæli með kvikmyndagerð sem valfagi við hvern sem er.

Wednesday, March 31, 2010

Kóngavegur og The Good Heart

Fór á hana á mánudaginn. Var búinn að sjá trailerinn og verða hrifinn. Reyndar er ég mikið á móti trailerum og reyni að forðast að mynda mér skoðun á myndinni útfrá þeim. Kóngavegur er samt kannski ein af þeim fáu myndum sem á eitthvað sameiginlegt með trailernum. Mér fannst hún öll eiginlega bara langur trailer.

Kóngavegur fjallar um fólk í hjólhýsahverfi á Íslandi. Það er eiginlega allur söguþráðurinn. Líf þessa fólks er frekar glatað, og myndin fjallar eiginlega um hvernig það verður verra. Ekki slæm hugmynd svosem, en mér fannst vanta aðeins meira samhengi og eiginlega að eitthvað myndi gerast. Þess vegna finnst mér hún vera langur trailer, það er fullt af góðum atriðum, en þau eru bara í belg og biðu.

Annars voru karakterarnir mjög skemmtilegir flestir. Bestir fannst mér Ray og Davis, en þeir nafnarnir leikararnir sýndu lang bestu frammistöðuna að mínu mati. Þeirra saga var líka um eitthvað, annan langaði í mömmu en hinn hataði þá hugmynd. Svo eignast þeir mömmu en ekkert skánar við það. Hinar sögurnar fannst mér samhengislausar þó að persónurnar væru vissulega áhugaverðar.


Þegar ég kom heim eftir myndina var ég spurður á hvaða mynd ég hefði verið. Ég svaraði að þetta hefði verið mynd sem væri að reyna að vera Djöflaeyjan, en tókst það ekki alveg. Ég held mig við þá niðurstöðu. Ruglaðar persónur, hörmulegar heimilisaðstæður, fyndnar uppákomur og heimskulegar setningar. En ekki jafn hjartnæm, náði aldrei því sem ég vildi sjá.


Fór á sýninguna eftir sýninguna sem hópurinn fór á. Einhvern veginn kemur alltaf eitthvað upp klukkan 6 á sunnudögum, en annars hef ég aldrei neitt að gera allan sunnudaginn. En það skiptir ekki máli.

The Good Heart fjallar um samband tveggja manna, annar þeirra er gamall skröggur og bareigandi, en hinn er ungur og heimilislaus ... tja aumingi. Eftir að sá gamli, Jacques, fær hjartaáfall í sirka 5. sinn hittir hann Lucas á spítalanum. Lucas hafði þá reynt sjálfsmorð, en mistekist. Jac tekur Lucas að sér því hann vantar erfinga að barnum sínum.

Jac lifir í sínum eigin heimi þar sem hann ræður öllu. Það eru bara nokkrir fastagestir á barnum og hann leyfir enga nýja viðskiptavini. Lucas er andstæða Jacs, vill bara gera gott og hjálpa öðrum. Hann er eiginlega of góður því hann hugsar bara um aðra og gefur t.d. öllum rónunum í kringum sig pening þegar hann eignast eitthvað smotterí.

Við fáum ekkert að vita um fortíð þeirra, myndin byrjar bara þegar þeir lenda báðir á spítalanum. Dagur sagði sjálfur í viðtalinu að hann vildi ekki sýna fortíð þeirra, engin flashbacks eða eitthvað kjaftæði. Persónurnar eru eins og þær eru vegna allrar sinnar fortíðar, en ekki einhvers eins atviks sem hægt væri að sýna. Mér fannst þetta góður punktur hjá honum því það er mikið um það að sýna flashbacks til að útskýra hegðun persóna. Það er þó hægt að vera viss um að Jac hefur verið svikin einhvern tíma af konu því hann leyfir þær ekki á sinni návist. Barinn er karlaveldi og þangað leita menn í frið frá konunum.

Það fer þess vegna alveg með Jac þegar April birtist á barnum upp úr þurru og Lucas býður henni uppá kampavín og allan pakkann. Þar er kominn erkióvinur Jac og hún hristir upp í samfélaginu sem þeir félagarnir voru búnir að koma sér upp.



The Good Heart snýst um persónusköpunina. Það heppnast alveg enda einvala lið leikara. Brian Cox er alveg frábær og vart hægt að hugsa sér betri mann í hlutverkið. Hann er bókstaflega vaxinn til þess að gera þetta. Paul Dano er líka góður, hann er með svona aumingjalegt andlit og einhver vonlausan svip sem á vel við þetta hlutverk. Myndin byggist á samspili þeirra tveggja, og þeir standa undir þeim væntingum.

Mér fannst það lang besta vera atriðið með brokkolíið. Þegar hann segir að brokkolí sé eins og prump í laginu... ég fékk bara vitrun, þetta var svo mikið satt. Ég er ennþá að hlægja að þessu í hvert skipti sem ég man eftir því.



Sunday, February 28, 2010

The Last Samurai

Þessi rosalega Hollywood stórmynd átti að gera allt vitlaust og sigra heiminn með Tom Cruise í fararbroddi. Þannig man ég allavega eftir auglýsingunum og hype-inu í kringum hana. Auðvitað lét ég til leiðast. Og ég varð fyrir vonbrigðum. Eins og allir aðrir held ég. Ég veit ekki alveg hvað það var, hún bara virkaði ekki.

Svo horfði ég á hana aftur. Svipaðar tilfinningar, ég var eiginlega að vona að ég hefði bara verið þröngsýnn. Nei nei, nú átta ég mig bara betur á því sem fór úrskeiðis. The Last Samurai tekst ekki að vera það sem hún ætlar að vera. Hún er mjög nálægt því á köflum. Eiginlega bara alla myndina. Maður sér einhvern vegin alltaf hvað myndin er að reyna að sýna, hvaða tilfinningar hún vill ná fram. Maður finnur fyrir því, en það er alltaf eitthvað sem plagar mann, “þetta er fyrirsjáanlegt”, “já, mér líður svona, af því ég veit mér á að líða svona”. Myndin líður fyrir það að vilja vera sérstök, en vera um leið gegnsæ. Ótrúlegt hvað það hefur mikið að segja.

Myndin fjallar um hernaðarhetjuna Nathan (Tom Cruise) sem er fangaður af Samuraiunum sem hann berst á móti í Japan. Hann verður einn þeirra. Það er augljóst bara af því að lesa titil myndarinnar. OK, hvað hefur hún þá ef ekki gott plot? Góða persónusköpun? Svo nálægt því... Tom Cruise er ekki lélegur leikar, en hann er með sama svip allan tímann og nær ekki þeim persónuleika sem ætlast er til. Katsumoto (Ken Watanabe) er áhugaverð persóna en ekkert kafað nánar í hann (gæti vert hana betri mynd)þ Vel gerð? Já já, flott umgjörð og vandað til verks. Mér fannst klippingin samt allt of augljós. Maður sá alltaf hvaða tilfinningar var verið að reyna að kalla fram. Allt svo augljóst, því miður.

Stórmynd sem floppar, algerlega að mínu mati. Svo er japanski keistarinn svo kvenlegur að það er ekki hægt að taka hann alvarlega.

P.S. það er annað blogg á undan þessu ef því hefur ekki verið veitt eftirtekt.

Se7en og Bourne Identity



Shit. Tense. Var að rifja Se7en upp um daginn. Mundi lítið eftir myndinni sjálfri en augljóslega hvernig hún endaði. Það gleymir því ekki nokkur maður.

Brad Pitt klikkar aldrei. Ég varð augljóslega ástfanginn af honum í Fight Club og það er alltaf gaman að horfá myndirnar hans, þó þær séu ekki sérstakar. Það þarf þó ekki að hafa áhyggjur af því með Se7en.

Myndin fjallar um tvo rannsóknarlögreglumenn, David Mills(Brad Pitt) og William Somerset(Morgan Freeman), sem eru einmitt að byrja að vinna saman. Reyndar er Somerset, sá gamli, að hætta. Þeir vinna að morðmáli sem vindur upp á sig og loks átta þeir sig á því að morðinginn er að fremja morð eftir dauðasyndunum sjö. Þeir verða því að ná honum áður en hann klárar verkið. Persónusköpunin er mjög góð og skemmtileg og fer einnig vel við hasarinn. Se7en væri góð bara sem afþreying en hún nær að vera miklu meira en það.

Morgan Freeman er augljóslega í þessari mynd, fyrst Samuel L. Jackson er ekki, en eins og alþjóð veit er alltaf annar hvor þeirra í öllum myndum. Ég held ég hafi aldrei séð hann ekki standa sig vel í mynd, enda orðinn reynsluhundur, og leikur yfirleitt líka reynsluhunda.

Kevin Spacey hoppar síðan um borð og sýnir stórleik. Segi lítið meira um það enda er endirinn punkturinn yfir i-ið á frábærri mynd.


Bourne Identity fjallar um mann sem er fiskaður upp af smábátaáhöfn undan ströndum Frakklands. Hann man ekki neitt, ekki hver hann er eða afhverju hann var í sjónum. Hann er þó með 2 skotsár á bakinu og leiser með bankanúmeri græddan í mjöðmina. Hann fer í bankann en í öryggishólfinu sínu finnur hann fullt af pening, vegabréfum(sem segja að hann heiti Jason Bourne) og byssu, en til að bæta ofan á það kemst hann að því að hann er fáránlega góður að slást. Löggan byrjar að elta hann en hann fær sér far til Parísar hjá einhverri gellu sem borgar offjár fyrir. Þá fer CIA að elta hann en það er þrautin þyngri því Bourne er þrautþjálfaður í að vera ósýnilegur og komast undan. Allt vindur þetta uppá sig og Bourne þarf að flýja CIA um leið og hann reynir að komast að því hver hann er.

Bourne Identity er gerð eftir fyrstu bókinni í þríleiknum um hann Jason Bourne, superspy sem veit ekki hver hann er. Myndin er einkar vel heppnuð og varla lakari en bókin, sem ég hef ekki lesið. Það er nóg af spennu og eltingaleikjum og bardagaatriðum til að halda manni á tánum en svo er líka alltaf þessi óvissa alla myndina sem verður til þess að maður hreinlega vill ekki hætta að horfa. Alveg ekta afþreying.

Matt Damon leikur Jason og gerir það bara ágætlega. Jason á greinilega eitthvað skuggalega fortíð miðað við það sem hann kann, en fyrst minnið er farið veit maður ekkert hvort hann er/hafi verið góður gaur eða ekki. En hann vill allavega ekki gera neinum illt sem á það ekki skilið svo að hann getur ekki verið mjög slæmur.

Skemmtanagildið er hátt og spennan góð, s.s. mikil meðmæli !


Ætla síðan að skella inn bloggum um síðari tvær Bourne myndirnar

Tuesday, February 16, 2010

Watchmen

Sjitt hvað þetta er epísk mynd. Vá hvað ég fíla hana mikið. Elska lagavalið í henni, þau passa svo vel. Og þá er ég að tala um atriðin þar sem eitthvað classic lag er í gangi og einhver atburður að gerast, eins og t.d. jarðarför Grínistans (The Comedian). Hellidemba, líkkista, allir sorgmæddir og The Sound of Silence með Simon and Garfunkel í botni. Ég fæ gæsahúð í hvert skipti sem ég sé þetta atriði. Maður sér svona smá Tarantino í þessum atriðum. Það sagði mér einhver einhvern tíma að Tarantino hlustaði á tónlistina sína og sæi fyrir sér atriði eftir lögunum, svo býr hann til sögu útfrá þeim. Auðvitað var Watchmen sagan til en þetta er held ég svipuð pæling, það er unnið með og útfrá tónlistinni, og það gerir svo ótrúlega mikið fyrir atriðið. Dæmi um þetta frá Tarantino eru í öllum myndunum, en ég hugsa strax um þegar Mr. Blonde(held ég að hann hafi heitið) sker eyrað af löggunni og ætlar svo að brenna hann. Byrjunaratriðið er líka svona, þegar þeir labba allir saman niður götuna með Little Green Bag undir. Pulp Fiction snýst eiginlega líka bara um svona atriði.

Ef ég geri einhvern tíma mynd í fullri lengd þá byggi ég hana klárlega á nokkrum svona atriðum.



The Comedian nettur

Ég nenni nú varla að þylja upp mikið um söguþráðinn en sagan gerist árið 1985 í heimi þar sem Bandaríkjamenn unnu Víetnam og ofurhetjur eru “raunverulegar”. Það er samt bara einn maður með ofurkrafta, Dr. Manhattan, en hann er eiginlega bara guð og algert svindl, því hann getur allt og veit flest. Allir hinir eru bara góðir að slást og fara í flotta búninga. Þeirra tími er hins vegar liðinn og eini sem er ennþá virkur er Rorschach, en hann er nett geðbilaður. Hann heldur að einhver sé að drepa fyrrverandi ofurhetjurnar en undirliggjandi er alltaf sagan um kalda stríðið og kjarnorkuógnina.

Watchmen er grimmileg írónía og samfélagsgagnrýni, en myndasagan er víst eina myndasagan á einhverjum lista yfir 100 bestu bækur 20. aldarinnar. Myndin kemur þessari kaldhæðni vel til skila en ég ætla ekki að þræða það neitt frekar, enda ekki maðurinn í það.



Dr. Manhattan á góðum degi

Persónurnar eru frábærar, og bestur er klárlega Rorschach. Hann er grimmasti góði gæi sem hugsast getur, réttlæti er það eina sem hann hugsar um. Hann er Chaotic Good, engin miskunn, engin hvíld. Hann sagði sjálfur, hann er ekki lengur sá sem hann fæddist sem, sá maður er horfinn, eina sem er eftir er Rorschach. Svo er hann líka með svo netta rödd, ótrúlegt að lítill rauðhærður gæi sé með nettustu, grimmustu og skelfilegustu rödd í heimi. Hann á allar flottu setningar myndarinnar. Geggjaður karakter.

Dr. Manhattan var venjulegur eðlisfræðingur sem festist í einhverjum geislum á tilraunastofu og sprakk. Hann reformaði sem blár gæi sem getur allt, hreyft hluti með huganum, teleportað, séð fortíð og framtíð sína og bara allt sem hugsast getur. Eftir það notaði Bandaríkjastjórn hann til að vinna Víetnam og halda Sovétmönnum í skefjum, því hann getur stoppað kjarnorkusprengjurnar. Hann er þó hættur að finna til með mannfólkinu og fjarlægist alla.

Ozymandias er gáfaðasti maður jarðarinnar og var sá eini af Watchmen-unum sem kom fram undir réttu nafni þegar þau hættu. Hann græddi endalaust á því og vinnur nú að því að finna endalausa orku fyrir mannkynið.

The Comedian er líka frábær karakter. Gersamlega hugsunarlaus gaur sem vill greinilega bara hasarinn. Hann var í fyrstu grúppunum sem fóru út grímuklædd og börðust gegn glæpum, en hann deyr strax í byrjun. Í flashback-um sést hann bara drepa óléttar konur og asíubúa, og jafnvel ameríkana. Svo er spurningin hvort hann sá eftir þessu öllu eða ekki.

Það er mikið verk að skirfa um alla hina í myndinni en allir þeirra bæta hana á sinn sérstaka hátt.



Sambland af húmor, hasar, samfélagsgagnrýni og almennum töffaraskap gera þessa mannlegu ofurhetjumynd svo geggjaða skemmtun að orð fá því ekki lýst. Ég held ég hafi horft svona 5 sinnum á hana, og hún kom út í fyrra. Reyndar ekki alla í einu alltaf því hún er næstum 3 tímar, en ég veit ekki hvernig hún ætti að vera styttri.