Wednesday, December 2, 2009

Up og Star Trek

Ég horfði á Up um daginn, en ég fór ekki á hana í bíó af einhverjum ástæðum óþekktum fyrir mér. Kannski af því ég var ekkert spenntur fyrir þrívíddarfídusnum og áhuginn var þar með lítill. En þessi nýjasta Pixarmynd er hin besta skemmtun.
Í stuttu máli fjallar hún um gamlan mann sem eiginlega gleymdi að láta drauma sína og konu sinnar rætast meðan hún lifði. Hann fær svo nóg af borgarlífinu og flýgur með húsið sitt í leit að draumaveröld sem á að vera einhver staðar í Suður-Ameríku. Lítill, feitur skátakrakki húkkar sér óvart far og eins og við mátti búast þá er þeim gamla illa við krakkann.
Frítt föruneyti
Þegar ég sá fyrsta trailerinn einhvern tíma fyrir löngu þá leist mér sjúklega vel á, en sá sýndi voða fátt annað en þetta blessaða blöðruloftbelgshús. Seinna komu svo fleiri trailerar sem sýndu eitthvað um söguþráðinn og þá fór ég að spá hvort Pixar væru að missa það.. ég meina hversu týpískt er að hafa gamlan, úldinn kall sem líkar ekki við litla, feita strákinn en þeir eru samt fastir saman á einhverju ferðalagi og enda á því að verða vinir eftir að hafa rifist. Það hreinlega hlaut að vera eitthvað sem vægi upp á móti þessu, eins og t.d. í Shrek(reyndar ekki pixar mynd) er alveg sama formúla bara með trölli og litlum asna. Það sem bjargar Shrek er augljóslega hvað asninn er fáránlega fyndinn og orðheppinn, hvað persónusköpunin er skemmtileg og síðast en ekki síst hvað týpískt ævintýri er útfært á grillaðan hátt. En nóg um Shrek.
Pixar eru ekkert búnir að missa það. Þó þetta sé ekki þeirra besta mynd, þá á hún mjög vel heima á þeim háa stalli sem Pixar hafa smíðað undir sig. Up er nefninlega alveg verulega steikt. Maður hlær kannski ekki mjög oft eða mjög upphátt en það er alltaf einhver tilfinning sem fær mann til að glotta og geta ekki hætt því. Ég reyndar hló alveg virkilega mikið og virkilega upphátt þegar kjánahundurinn(Russel hét hann víst) tók fyrsta "SQUIRREL" kippinn. Það kom alveg aftan að mér. Og þessir hundar sem þjónar gæjans.. það var náttúrulega ekki til að minnka steikina. En rúsínan í pylsuendanum var þetta dýr, eiginlega soldið týpískt fyrir Pixar. En nú þýðir týpískt fyrir Pixar einfaldlega frumlegt.
"SQUIRREL" atriðið góða
Það eina sem mér fannst virkilega slappt var brandarinn með skræku röddina hjá aðalvondahundinum, það féll ekki í kramið. En annars bara góð viðbót við geðveikt safn Pixar mynda.


Ég horfði líka á nýju Star Trek myndina um helgina. Ég hef aldrei horft á heilan Star Trek þátt á ævinni en mamma festist einu sinni í þessu og ég sá brot og brot. Það virtist aldrei vera mikið action í þáttunum, í mesta lagi einhver að fela sig bak við stein með leiserbyssu en var svo beam-aður upp í skip. Þess vegna settist ég aldrei niður með mömmu. Þessi virtist hins vegar lofa miklu actioni og geysilega flottum atriðum svo ég fann mig tilneyddan til að gefa henni séns.
Ég get ímyndað mér að þessi mynd sé soldið frábrugðin fyrri myndum að því leyti að hér er mikill hasar og í rauninni skiptir söguþráðurinn eða þekking á Star Trek heiminum ekki máli. Ég var t.d. alveg með á nótunum hvað væri að ske, og fyrir mér gæti þessi mynd alveg verið bara einhver sjálfstæð saga sem var spunnin upp í kringum þessa mynd. En auðvitað þekki ég ekki söguna á bak við allt þetta og það gætu alveg verið einhverjar frábærar/lélegar vísanir og nýjar hliðar á gömlum persónum. Ég veit ekkert um það og hef ekkert kynnt mér það.
Ég býst við að ég sé í meirihluta í þeim efnum og fyrst framleiðendurnir ætluðu að gera svona stóra mynd þá yrðu þeir að hafa eitthvað almennilegt efni fyrir hinn almenna áhorfenda. Það tekst líka vel því myndin er fínasta afþreying og heldur manni spenntum alla leið. Maður elskar Kirk frá upphafi því maður sér að pabbi hans var góður maður, þó eitthvað hafi uppeldið misfarist hjá Kirk. Hann er góður í barfight, fyndinn, gáfaður en er samt alveg sama um allt. Þetta er blanda sem sést ósjaldan í bíómyndum. Svo er Spock þessi reglufasti og rökrétti, sem glímir samt við sín eigin vandamál. Það er því augljóst frá upphafi að þessir tveir munu mynda gott teymi.
Teymið góða, Spock og Kirk
Söguþráðurinn er þannig að James T. Kirk er fenginn(eða ögrað) til að reyna að verða kapteinn í stjörnuflota Jarðar, því pabbi hans hafði verið kapteinn í 12 mínútur og bjargað fjölda lífa. Svo eru einhver þjóðflokkur sem birtist með háþróaða tækni og reynir að gera útaf við samfélag vetrarbrautarinnar. Mjög hasarmyndalegt en allt í lagi.
Skemmtanagildið er allt sem þessi mynd hefur fyrir mig(non-Star Trek fan) og hún hefur helling af því. Hún er mjög flott og fangar augað og eins og ég sagði heldur manni við skjáinn allan tímann. Mæli með henni sem afþreyingu, en ekki ef í leit að stórvirki.

Tuesday, December 1, 2009

Alien

Um daginn horfði ég á Alien og svo Aliens á spólu. Það var í sjálfu sér afrek að koma vídjóinu í samband og fá það til að virka. Hraðspólið afturábak virkaði heldur ekki svo ég varð að spóla hægt og það tók svona hálftíma. En þrautseigjan(lesist þrjóskan) skilaði sínu.
Alien fjallar um áhöfn á flutningageimskipi sem er vakin fyrr úr djúpsvefni vegna neyðarkalls frá órannsakaðri plánetu. Þau lenda á plánetunni og finna stórt ?geimskip? sem virðist alveg líflaust. Einn úr áhöfninni snýr þó til baka í skipið sitt með einhverja lífveru fasta framan í sér. Hann er í dái þangað til veran lætur sig hverfa en þá virðist allt vera í lagi. Stuttu seinna brýst þó geimvera út úr honum við matarborðið. Það er með frægari atriðum kvikmyndasögunnar, enda sjúklega nett. Þá hefst spennandi atburðarás sem svíkur engann þann sem leitar að afþreyingu.
Myndin fylgir aðallega einum meðlimi áhafnarinnar, henni Ripley, sem virðist vera mjög venjuleg kona með sterka rökhugsun.

Ripley á góðum degi
Við sjáum ekki mikið af verunni nema þegar hún er ungi að rífa sig lausa frá mannhýsli sínum. Annars er hún einhver staðar í skipinu að gera það gott og éta einn og einn áhafnarmeðlim. Ripley lendir í útistöðum við einn meðlim áhafnarinnar sem er vélmenni, en hann vill rannsaka veruna og hefur skipanir um það frá tölvu skipsins. Ripley veit hins vegar að það þarf að drepa veruna eða drulla sér sem lengst í burtu.
Brellurnar eru góðar í myndinni en hún fékk einmitt Óskarinn fyrir þær. Það er í rauninni ekki krafist mikils nema að veran sé vel gerð og drápin séu raunveruleg. Það hefur örugglega verið rosalegt að fara á þessa mynd þegar hún kom fyrst út því spennan er byggð upp svo mikið og svo birtist bara einhver drullu raunveruleg vera sem er til í að éta þig. Og já, hún hefur sýru í staðinn fyrir blóð.
Gæða skemmtun fyrir alla sem vilja tryllta spennu sci-fi mynd. Pottþétt!

Aliens gefur fyrri myndinni ekkert eftir, en hér er kominn annar leikstjóri, James Cameron. Hann hafði þá áður gert Terminator, sem er ruddaleg hasarmynd og á það sameiginlegt með Alien að skarta kvennperósnu í aðalhlutverki.
Söguþráðurinn er ekki merkilegur og á í rauninni ekki að vera það. Ripley finnst fyrir einskæra heppni svífandi um geiminn í litla farinu sem hún slapp á í fyrri myndinni, en það eru liðin 57 ár. Menn eru samt ekki á þeim buxunum að trúa Ripley og það er ekki fyrr en allt samband við nýlendu á plánetunni úr fyrri myndinni glatast sem þeir vilja eitthvað með hana hafa. Þá er lagt upp í leiðangur til að tékka á status á nýlendunni. Úrvalslið hermanna skipar stærsta hluta hópsins og bera þau mjög stórar byssur og eru frekar miklar stereotýpur, en það er spurning hvort þessi mynd hafi átt þátt í að móta þessar týpur, ég þekki það ekki nógu vel. Það er líka eitt vélmenni í hópnum og Ripley er ekki á þeim buxunum að treysta því. Actionið fer svo í gang þegar þau lenda á nýlendunni og eiga í erfiðleikum með að komast burt.
Það sem þessi mynd hefur upp á að bjóða er klassa hasar og skemmtilegar persónur. T.d. eru tvær kvennhetjur, Ripley og Vasquez, sem er frekar lesbíuleg, skotóð gella. Hún heldur uppi fjörinu á meðan Ripley er miklu alvarlegri og þarf líka að glíma við karlrembu og yfirvald sem vill henni allt illt.
Ein aðalpersónan er Newt, lítil stelpa sem er eini eftirlifandinn á plánetunni. Hún treystir engum nema Ripley og kannski eins gott, því hún hefur komist af best sjálf. Myndin inniheldur meira magn af verum en fyrsta, sem var bara með eina, en þær eru samt ekkert auðdrepanlegar. "Endakallinn" er líka skuggaleg vera sem ég væri ekki til í að lenda í.
Aftur, klassa hasarmynd sem veldur ekki vonbrigðum, ekki einu sinni rúmum 20 árum eftir að hún kom út.
Newt í ruslageymslunni

Thursday, November 19, 2009

Antichrist

Prologue-ið í sturtunni... of flott

Ef einhvern tíma er hægt að segja að bíómynd sé meira listaverk en nokkuð annað(það á nú að vera hægt), þá gildir það pottó um Antichrist. Prologue-ið er einfaldlega bara rugl flott. Allt svart-hvítt og í slow motion, kynlíf og barn að deyja. Það kemur eitt “ógeðisatriði” í þessari senu, en þau eru það sem hafa gert þessa mynd fræga, að ástæðulausu finnst mér. Aðalpersónurnar eru að ríða í sturtu, atriðið í slowmo og allt mjög fallegt og listrænt. Svo kemur í sirka 2-3 sekúndur bara beint Typpi í Píku. Close up! Á eflaust að framkalla shock og ýta einhver vegin við manni. En mér finnst það alveg óþarfi, atriðið er svo flott fyrir.



Kofinn góði

Svo ég fjalli nú aðeins um söguþráðinn, þá segir myndin frá sorg foreldra barnsins sem deyr í byrjun. Pabbinn (Willem Dafoe) er sálfræðingur og virðist ekki taka sonarmissinn of nærri sér, eða sýnir það ekki. Mamman(Charlotte Gainsbourg) er alveg niðurbrotin. Sorgin virðist ætla að ganga fram af henni en þá ákveða þau að fara upp í kofa sem þau eiga, langt frá byggð.

Myndin er frekar ruglingsleg enda er söguþráðurinn ekki aðal málið, ehdlur tjáningin. Antichrist er gjörningur.

Leikararnir eru í krefjandi hlutverkum en sína samt góðan leik. Sérstaklega Willem Dafoe. Hann er með svo sérstakan svip, sem annað hvort tjáir þvílíkar tilfinningar, eða er gersamlega tómur. Hann þurfti bæði í Antichrist.


Hvað ógeðið í myndinni varðar, þá finnst mér það ekki nauðsynlegt. Kannski er það einhver tjáning og sumum finnst það kannski ómissandi. Ég held að það hafi bara verið til að veita myndinni meiri athygli og umtal. Það eru fleiri sem vilja sjá hana ef hún er umtöluð vegna ógeðs. Auðvitað eru þá einhverjir sem vilja ekki sjá hana, og fólk labbar út af henni. En athyglin er alltaf meiri en ella. Persónulega bjóst ég við meira gore-i eftir þetta umtal. Hún var alveg óþægileg á köflum en var miklu meira mindfuck en ógeð. Miklu miklu meira. Oft var ég bara “wtf!” og “why?”. En þegar myndin var búin, þá vissi ég ekkert hvað ég átti að halda. Ég bjóst við að allt myndi skýrast og enda, en... Hvað var eiginlega að gerast í þessari mynd? Hvernig fannst mér hún? Meistaraverk eða bara eintóm sýra? Kannski bæði.. í einu. Ég veit það ekki enn. Ef ég er spurður hvernig mér fannst hún segi ég: “uuuuu, mjög spes. Miklu minna gore en ég bjóst við. Veit ekki hvort hún sé snilld eða ekki. Sjáðu hana!”

Það er engan vegin hægt að segja einhverjum að hann muni fíla hana, eða hafa gaman af henni. Hver verður að túlka hana á sinn hátt eða mynda sér sína eigin skoðun, eða bara ekki getað ákveðið sig. Kannski gerir það hana “góða” eða allavega að því sem hún er, Fucked up mynd sem skilur alveg helling eftir sig. Svo er það bara þitt vandamál að leysa þá flækju.

10/10 eða 1/10 eða bara fyrir utan skalann.


P.S. það er þungu fargi af mér létt að skrifa um hana. Held ég




Thursday, October 29, 2009

Jóhannes


Ég fór á Jóhannes kvöldið eftir að leikstjórinn, Þorsteinn Gunnar Bjarnason, mætti í spjall til okkar. Þess vegna gat ég augljóslega ekki spurt hann um eitthvað sem ég þyrfti að fá svör við. Það er ekkert sem mér dettur í hug sem ég myndi spyrja hann að enda var hann mikið spurður í spjallinu. Þetta gerði það að verkum að ég var aðallega að leita að göllunum sem búið var að minnast á. Ég og Eggert fórum í keppni hvor myndi finna eða muna eftir fleirum og ég held ég hafi unnið.

Í stuttu máli fjallt myndin um mjög venjulegan miðaldra mann að nafni Jóhannes sem stoppar til að hjálpa ungri stúlku með bilaðan bíl. Hún er frekar saklaus sveitastelpa og bíður honum inn í te svo hann geti þornað. Þá verður ekki aftur snúið og atburðarásin vindur upp á sig, Jóhannes er eltur af kærasta stelpunnar og löggunni sem telur hann vera pervert og gluggagæji. Það er enginn forleikur að sögunni og engin kynning á persónunm, nema þegar þau spyrja hvert annað hvað þau geri. Allt annað verðum við að túlka út frá gjörðum þeirra og hvað þau segja.

Mér finnst Jóhannes heppnast mjög vel miðað við hversu lítill tími fór í gerð myndarinn sjálfrar. En á móti kemur kannski að sagan er einföld og auðveld í meðferð. Ég náttúrulega vissi að eitthvað af myndinni var döbbað og ég tók alveg eftir því, en sennilega bara af því ég var að leita að því. Nema kannski þegar hann var að borða pulsuna, þá var smjattið alveg geðveikt hátt.

Það voru allir búnir að tala um hvað Unnur Birna væri léleg svo ég bjóst við einhverjum hryllingi. Ég get eiginlega ekki dæmt um hana því hún var betri en hryllingur, en ég sá auðvitað að hún var ekkert sérstök.

Laddi stóð sig vel enda bara natural leikari eins og Þorsteinn Gunnar sagði. Það er líka frekar basic að hafa Ladda í einhverri svona týpískri íslenskri mynd. Honum tekst alltaf að vera fyndinn og flest miðaldra fólk missir sig þegar það sér Ladda með boner. Hvað gæri hugsanlega verið fyndnara. Það er bæði sölumennska og ekki að vera með Ladda í aðalhlutverki, hann fittar vel í hlutverkið en er líka mjög heitur þessa dagana. Hin stóru nöfnin, Stefan Karl og Unnur Birna eru virkilega góð auglýsing en svo er Stefan líka fæddur fyrir svona hlutverk.

Gömlu konurnar voru mjög fyndnar og gáfu myndinni soldið víðari húmor. Þær voru algerir seggir en samt eitthvað svo líklegar til að vera ekta, þær voru ekki of ýktar, en þó alveg á mörkunum.

Jóhannes er ekki gerð á neinum styrkjum svo það er nauðsynlegt að hafa stór nöfn í henni. Það hefði aldrei gengið svona vel ef þau væru ekki aðal aðdráttaraflið. Myndin er ekki það góð. Halldór Kristján sagði í spjallinu að myndin væri alveg týpísk íslensk grínmynd frá níunda áratugnum. Ég held að hann hafi hitt naglann á höfuðið þarna. Svona hrakfallamynd með frekar alvarlegri aðalpersónu.

Fínasta íslenska mynd en ekkert sem ég hrópa húrra yfir.


P.S. það var mjög fyndið þegar Þorsteinn Gunnar talaði um hvernig þeir tóku upp bílaeltingaleikinn. Ég hefði verið til í að sjá svipinn á kellingunni sem bankaði á rúðuna hjá þeim og sagðist vera búin að hringja í lögguna þegar hún sá Ladda og myndavélarnar. Mig langar soldið að prófa að taka upp svona eltingaleik, örugglega adrenalín kick.

Monday, October 19, 2009

Handritaáhorf - Training Day

Ég viðurkenni það fúslega að ég hef séð Training Day áður, en það er alveg frekar langt síðan, mundi bara hvað gerist í aðalatriðum. Ég ætlaði fyrst að horfa á Snatch, en ég hef ekki séð hana. Handritið var samt öðruvísi upp byggt en myndin og það ruglaði mig frekar mikið, svo ég sleppti henni eftir sirka 20 mín. Mér fannst handritið ekki flæða jafn vel í Snatch, en það var kannski vegna þess að ég las bara byrjunina og þar er eiginlega bara veri að kynna persónur til sögunnar.
Ég ætla fyrst að tala um hvernig var að lesa handritið með, en svo fjalla aðeins um myndina, því þarna er eðalræma á ferðinni.

Training Day snýst að mestu leyti um samband Jake(Ethan Hawke), nýliða í fíknó, og Alonzo(Denzel Washington) sem er leiðbeinandinn hans. Þar af leiðir að handritið er að mestu leyti samtöl. Það nær samt vel að mynda stemminguna sem á að vera í bílnum(sem þeir eyða mestum tíma í) með því að inn á milli setninganna er skotið hugsunum Jakes. Þetta gerir það að verkum að lesandinn sér fyrir sér svipbrigði Jakes. Nú er undið leikaranum komið að skila þessum tilfinningum vel til áhorfandans. Auðvitað hafa flestir áhorfendur ekki lesið handritið og vita því ekki hvað það segir að Jake eigi að gera. Það gefur manni meiri og dýpri skilning á líðan persónanna að lesa handritið. Aðstæðurnar og ytri áhrif koma ekki eins mikið fyrir í handritinu en það gefur leikstjóranum meira svigrúm til að beyta sínum stílbrögðum og ná fram því sem hann vill. Mesti munurinn á handritunum fyrir Snatch og Training Day fannst mér þessi sköpun aðstæðna, en hún var mun opnari í Training Day.
Alonzo nennir ekki að handtaka
Training Day er virkilega góð mynd. Hún fjallar um Jake sem er að hefja feril sinn sem fíkniefnalögga. Hann mætir í vinnuna fyrsta daginn til leiðbeinanda síns, Alonzo. Þann dag á hann að læra af því sem hann sér hjá Alonzo. Alonzo er ekki með gott "first impression" og er með frekar mikil leiðindi við Jake, en helur ekkert aftur af sér við að segja honum hvernig heimurinn virkar. Hann gabbar Jake til að reykja englaryk og drekka bjór í vinnunni. Þeir keyra um í bílnum hans Alonzo og fara aldrei á stöðina. Við fáum strax þá hugmynd að Alonzo sé ekki allur þar sem hann er séður en Jake gerir þó allt sem hann vill að hann geri vegna metnaðar síns. Þegar líður á myndina leikur þó enginn vafi á að Alonzo er spillt lögga. Hann fer um bæinn eins og hann eigi hann og rænir og gerir í raun bara það sem honum sýnist. Jake er ekki hrifinn af því en hann ætlar ekki að mótmæla of mikið og missa af tækifærinu til að verða alvöru lögga.
Ég ætla ekki meira útí söguþráðinn til að spoila ekki. Myndin á allt sitt í sambandi Jake og Alonzo og hvernig Alonzo kemur fram við hann. Hann virðir ekki skoðanir hans og er of stórt egó til að sjá eigin galla. Hann afsakar það sem hann gerir rangt með tölum og staðreyndum um feril sinn en er í raun bara að reyna að blekkja sjálfan sig. Hann er orðinn svo spilltur að hann sér ekki hvað er rangt við að stela af fátæku, venjulegu fólki. Hann heldur að hann sé yfir það hafinn. Jake er með svo mikla réttlætiskennd að hann getur ekki tekið við peningum sem þeir ræna af dópsala, þrátt fyrir að ekki nokkur maður myndi komast að því. Þeir eru algjörar andstæður en þó virðist Alonzo hafa eða hafa haft einhvern vott af samvisku, en hafa valið ranga braut. Alonzo er orðinn svo mikið egó og eiginhagsmunaseggur að allir þeir sem hann "hefur í vasanum" eru farnir að hata hann og vilja jafnvel drepa hann.
Action
Myndin gerist öll á einum degi, eða Þjálfunardeginum, og SPOILER endirinn er skilinn eftir í soldið lausu lofti, en þó má búast við því að réttvísin sigri á endanum SPOILER ENDAR. Denzel Washington sýnir geðveikan leik, en svona hlutverk henta honum mjög vel. Þar sem persónurnar dansa á einhverjum siðferðislínum. Hann getur sýnt einhvern svipbrigðalausan svip sem lýsir samt hörku og nettleika. Geggjað. Ethan Hawke stendur sig líka mjög vel og þó hlutverkið krefjist næstum bara einhvers ráðalauss og sjokkeruðum svip tekst honum vel til.
Frábær mynd og gaman að lesa handritið og fá nokkruns konar staðfestingu á því sem myndin á að sýna manni.
Jake í kröppum dansi

Thursday, October 15, 2009

Arrested Development


Nú veit ég ekki hvort það er mikið um þáttaraðagagnrýni í kvikmyndagerð, en ég er mikið fyrir þætti, þeir eru stuttir og gott að skella einum í gang meðan maður borðar eða eitthvað eftir skóla.
Arrested Development eru klárlega uppáhalds þættirnir mínir. Ég gæti ekki valið þætti í annað sæti, en það skiptir ekki máli, þessir eru bestir. Ég hreinlega man ekki af hverju ég byjaði að horfa á AD, hvort þeir voru á skjá einum eða eitthvað. En nú á ég allar seríurnar og dett öðru hverju í hálfgert maraþon þar sem ég tek eina seríu á 3 dögum eða svo. Af einhverjum óhimneskum ástæðum var hætt að framleiða þá eftir 3 seríu.
Það sem gerir þessa þætti þá bestu er klárlega persónusköpunin. Það er einn venjulegur karakter og allir hinir eru létt eða vel geggjaðir. Sá maður er aðalpersónan, Michael Bluth. Hann er tæplega fertugur ekkill með einn sirka 16 ára son, George Michael Bluth. Michael vinnur í fyrirtæki pabba síns og er langduglegasti og gáfaðasti starfsmaðurinn. Í fyrsta þættinum er pabbi hans, George Bluth Sr., handtekinn og Michael eiginlega neyðist til að taka yfir stjórn fyrirtækisins til þess að bjarga fjölskyldunni. Fjölskyldan hefur ekki verið öll saman lengi en Michael hatar fátt meira en þau öll saman. Hann ætlar að komast burt frá þeim en eins og áður sagði, neyðist hann til að bjarga þeim.
Það er erfitt að segja hver er mesta keisið í fjölskyldunni því hver er öðrum skrýtnari. Michael á tvo bræður, Gob og Buster. Gob er elstur en alls ekki vitrastur. Hann er misheppnaður töframaður sem er ófær um að framkvæma einföldustu verkefni. Gob hefur aldrei unnið handtak á ævinni, heldur lifað á peningum fjölskyldunnar úr fyrirtækinu. Hann fær hverja asnalegu hugmyndina á eftir annari.

Buster er yngsta systkinið og alveg einstakur. Hann býr ennþá með mömmu sinni, og hún er alveg nógu klikkuð til að losa aldrei greiparnar af honum. Buster er ..tja.. innhverfur og veit ekkert hvernig á að lifa lífinu. Það er mjög erfitt að lýsa honum, en hann er bara stórfurðulegur.
Tvíburasystir Michaels heitir Lindsay. Hún hefur mjög litla samvisku og nýtir það til að safna pening með góðgerðarsamkomum, t.d. til verndar náttúrunni. Samt er henni alveg sama, en hún reynir stundum að blekkja sig um að svo sé ekki. Hún á eina dóttur, Maybe, sem hefur fengið takmarkað uppeldi og er mjög sjálfstæð. Hún er jafn gömul og George Michael en óskar þess að vera fullorðin. Hún er prakkari og gerir það sem henni sýnist. Helsta ástæða þess að uppeldi Maybe fór úrskeiðis er faðir hennar, Tobias Fünke.
Tobias er, eins og búist er við, eiginmaður Lindsay þó hann sé eiginlega meiri kelling en hún. Hann er klárlega fyndnasti karakterinn og allt sem hann segir er fyndið. Hann er menntaður held ég sálfræðingur en missti leyfið stuttu áður en söguþráðurinn hefst. Þá finnur hann sér nýja köllun, að vera leikari. Það klikkar aldrei þegar hann tekur atriði sem hann reynir að fá í áheyrnarprufum. Síðar sækir hann um í “The Blueman Group” en fær aldrei inngöngu. Samt málar hann sig iðulega bláan í von um þeir skildu hringja. Þrátt fyrir að reyna að vera venjulegur tekst honum alltaf að koma sér í vandræðalegar aðstæður með fáránlegum misskilningi. Svo er hann líka “nevernude” og er því alltaf í gallastuttbuxum innst, líka í sturtu. Leikarinn, David Cross, sýnir stjörnuleik í hverjum þætti og virðist vera sniðinn fyrir hlutverkið. Maður sér angistina og vandræðaleikann skína úr augunum hans og skallinn gerir bara gott betra. Hjónaband Tobiasar og Lindsayar er í molum og þau geta ekki ákveðið sig hvort þau vilji skilja eða ekki.

Tobias Fünke
Foreldrar Michaels er George og Lucille Bluth. Hjónaband þeirra er furðulegt en oftast virðist Lucille bara vera með George útaf peningunum. Á móti heldur George oft framhjá konu sinni. Þau taka þó stutt tímabil inn á milli þar sem þau eru “madly in love”. George á líka tvíburabróður sem kemur inn í þættina seinna þegar George er í fangelsi.
George Michael Bluth er sonur Michaels og líkist föður sínum að mörgu leyti. Hann er næst venjulegastur af öllum í fjölskyldunni en á samt við ýmis vandamál að stríða. Hann er virkilega feiminn og lætur undan þrýstingi. Í fyrsta þættinum fer hann í sleik við frænku sína, Maybe, og verður strax ástfanginn af henni. Sá brandari endist í gegnum alla þættina og þreytist ekki. George Michael er virkilega vandræðalegur og stressaður gæi, en samt á miklu venjulegri hátt en Tobias. Leikarinn, Michael Cera, er orðinn frægur í Hollywood leikari og leikur yfirleitt persónur sem líkjast á margan hátt George Michael.
Húmorinn í þáttunum snýst mikið um eiginleika persónanna og tekur því smá stund að komast inn í þá. Djókarnir eru ekki týpískir fyrir bandarískar sid-coms og það besta er að það er enginn “dósahlátur”, enda væri salurinn í kasti allan þáttinn. Hvert augnablik á að vera fyndið, og er það.

Ég hef ekki mikið vit á handritaskrifum en mér finnst AD alveg frábærlega skrifaðir þættir. Brandarar sem koma í fyrri þáttum eru oft endurvaktir og nýjum breytum bætt við. Allt einhvern vegin bara smellur saman.
Síðan þáttunum var cancellað í USA hefur verið bíómynd í bígerð. Mér skilst að vandamálið liggi í að fá leikarana til að taka þátt í henni. Ég vona innilega að bíómyndin verði að veruleika og þá verða sennilega allir lausir endar hnýttir eftir lok 3. seríu.

Thursday, October 1, 2009

RIFF

Ég sá bara 5 myndir á RIFF, sem er mjög ekki nógu gott en ég var fáránlega busy. En passinn borgaði sig þó. Ég ætla ekki að skrifa um Antichrist hér, finnst hún eiga sér blogg skilið fyrir að vera ... spes.

Dogtooth

Pottþétt með skrýtnari myndum sem ég hef séð! Hún fjallar um fjölskyldu sem býr í stóru húsi með háa girðingu umhverfis lóðina. Börnin 3 fá aldrei að fara út fyrir girðinguna, þeim er kennt að þar sé hættulegur heimur. Þau er orðin u.þ.b. tvítug en samt loka foreldrarnir þau inn í skel ennþá.

Það sem þessi mynd á helst að sýna er hverstu mikilvægt er fyrir börn að þekkja annað en bara heimili sitt og hve uppeldi er stór þáttur. Foreldrarnir loka einfaldlega á það sem þau vilja ekki að börnin viti um. Eitthvað eru þau líka mikið twisted því þegar konan sem fullnægir kynþörf sonarins er rekin á elsta systirin að redda því, Þá sést best hvað börnin eru reynslulaus en þau sjá ekkert að þessu uppátæki.

Fyrst og fremst óþægileg mynd, en þó áhugaverð á sinn hátt. Full hæg fyrir minn smekk, myndi sennilega ekki horfa á hana aftur, en ég mun muna eftir henni, það er pottþétt.



Firemen’s Ball

Því miður komst ég ekki á One Flew Over the Cuckoo’s Nest því ég var á æfingu en ég ákvað að fara á þessa, sennilega bara því hún er eftir Milos Forman. Ég sé ekkert eftir því, þó að hin hefði eflaust verið betri. Firemen’s Ball er síðasta mynd Formans í Tékkóslóvakíu og hann fer með stæl. Myndin er gamansöm en um leið samfélagsádeila sem gagnrýnir yfirvaldið.

Slökkviliðsmennirnir reyna eftir mesta megni að hafa ballið fullkomið en eftir því sem þeir skipta sér meira af, því meira fer úrskeiðis ***Smá spoiler*** Fegurðarsamkeppnin og happdrættið fara alveg út um þúfur og þegar eldur kviknar í bænum er slökkvibíllinn fastur og kallarnir alveg gangslausir. Botninum er síðan náð þegar heiðrunin á fyrrum forseta stöðvarinnar misheppnast alveg***Spoiler endar***

Helsti gallinn við myndina fannst mér að samtölin rúlluðu ekki mjög eðlilega, þó ég þekki ekki hvernig tékkóslóvakíska rúllar í daglegu tali. Fyndnast var þó að í byrjun gleymdist að setja á texta og enginn skildi neitt. Það var frekar steikt en svo var myndin jafnvel steiktari.



Dead Snow

Ég hef ekki séð margar splatter myndir og veit í raun ekki við hverju ég á að búast þegar ég sé þær. Braindead var sennilega sú fyrsta sem ég sá og mér fannst hún skemmtileg, en fáránlega skrýtin, Dead Snow er sú besta síðan ég sá Braindead. Vegna vanþekkingar minnar á splatterum var ég alltaf að bera hana saman við Reykjavík Whale Watching Massacre. Þessi mynd er svo miklu betri í alla staði! Það ætti ekki einu sinni að bera þær saman.

Söguþráðurinn er mjög einfaldur og týpískur. Nokkur ungmenni fara saman í skála langt frá mannabyggð. Karakterarnir eru ekki heldur frumlegir en halda myndinni alveg saman og skemmta manni ágætlega.

Nazistazombiarnir eru aðal aðdráttaraflið við þessa mynd og standa heldur betur fyrir sínu. Helsta áhugamál þeirra eru garnir fórnarlambanna og eltingaleikurinn verður stórskemmtilegur. Söguþráðurinn er þunnur en skemmtanagildið hátt, alveg eins og það á að vera.



Prodigal Sons

Prodigal Sons er fyrsta myndin sem ég sá á RIFF og því miður eina heimildarmyndin. Kimberly Reed var strákur en eftir að hann flutti að heima skipti hann um kyn og er nú kona. Myndin byrjar þegar Kim kemur aftur heim til þess að fara á reunion úr skólanum. Það sem hún er stressuðust yfir er að hitta fósturbróður sinn, Marc. Þau hafa ekki talað saman lengi en hún vill bæta þetta samband.

Kim leikstýrir myndinni sjálf og tekur sumt efnið sjálf upp. Óþægilegustu mómentin eru þegar hún er sjálf með kameruna og Marc tekur köst þar sem persónuleiki hans breytist til hins verra. Mér finnst myndin fjalla meira um hvernig er að umgangast bróður sem tekur svona persónuleikabreytingum. Kynskiptiaðgerðin er meiri baksaga þó að Marc fái útrás fyrir tilfinningar sínar í garð kynskiptingarinnar. Þessi óvissa með kynið varð nokkurs konar yfirborðsástæða fyrir því að Marc og Kim töluðust ekki við.

Áhugaverð mynd sem kemur manni til að hugsa um leið og óþægileg móment þjaka mann.

Saturday, September 12, 2009

American Beauty


Kláraði að horfa á þessa mynd í fyrsta skipti fyrir þrem tímum og ég stoppa ennþá við það sem ég er að gera til þess að hugsa um hana. Um hvað var þessi mynd eiginlega? Tilgang lífsins? .. Hver er tilgangur þessarar myndar er stærri spurning fyrir mér akkurat núna. Þá meina ég það auðvitað ekki á slæman hátt, þessi mynd er alveg frábær. Þetta er ein af þessum myndum sem fjalla ekki beinlínis um neitt sem gerist þannig lagað, engan atburð. Hún fjallar um fólkið í henni, hvernig það breytist og hvernig áhrif þessara breytinga breyta öðru fólki.
Svoleiðis myndir geta ekki verið góðar ef leikararnir eru það ekki. Og þeir eru undantekningarlaust góðir í American Beauty. Kevin Spacey fer þar fremstur í flokki en hann fékk Óskarinn fyrir þetta hlutverk. Hann leikur venjulegan, miðaldra fjölskylduföður sem fær gráa fiðringinn og rúmlega það eftir að falla fyrir vinkonu dóttur sinnar. Ný fjölskylda flytur í hverfið á sama tíma og allt virðist ætla að umturnast. Ég hafði mest gaman af nýja stráknum við hliðiná, Ricky Fitts, og hversu rólegur en samt svo truflaður hann var.
American Beauty er mynd sem að skilur eitthvað eftir sig, maður fer að spá í hvernig maður sjálfur er. Persónusköpunin er virkilega djúp og sterk, þrátt fyrir að allar persónurnar séu algerar staðalímyndir. En kannski er það einmitt það sem gerir nálægðina svo mikla að maður virðist alltaf geta sett sig í spor þeirra án þess að hafa nokkuð fyrir því.
Gríðarlega góð mynd, toppeinkunn. Ég skil ekki afhverju ég var ekki búinn að sjá hana fyrr !
Ricky Fitts

Wednesday, September 9, 2009

Topplisti

Ég hef alltaf átt erfitt með að velja mér nokkuð uppáhalds og það gildir líka um kvikmyndir. Það eru samt nokkrar sem mér þykir vert að minnast á þó þær séu ekki endilega þær sem mér þykir bestar, en ofarlega eru þær!

Léon(1994). Ef ég ætti að velja uppáhalds mynd til að bjarga lífi mínu, þá væri það sennilegast Léon. Franski gaurinn (frá Marokkó) sem er í fáránlega mörgum myndum en enginn veit samt hvað heitir (Jean Reno) dúkkar upp sem aðalpersónan í þessari mynd, enda frönsk mynd. Hann leikur leigumorðingjann Léon sem vinnur fyrir mafíósa að nafni Tony. Léon býr einn í íbúðinni sinni og gerir ekkert annað en þau verkefni sem Tony setur honum fyrir. Allt breytist síðan skyndilega og sirka 13 ára nágrannastelpa(Natalie Portman) hans neyðist til að flytja inn til hans.

Afbragðs leikarar eru í myndinni en Gary Oldman leikur spillta og frekar geðklikkaða löggu. Hann stendur sig frábærlega eins og von er og atriðin þegar hann étur pillurnar gefa manni hroll bæði af nettleika og klikkun. Natalie Portman stígur hér einhver af sínum fyrst skrefum og misstígur sig hvergi þótt sum atriðin dansi heldur betur á siðferðislínunni. Jean Reno nær vel þessum sakleysislega en þó, að því er virðist í fyrstu, tilfinningalausa leigumorðingja sem finnur nýjan tilgang í lífinu.

Ég vissi ekkert um leikstjórann, Luc Besson, fyrr en ég ákvað að skrifa um þessa mynd. Þá komst ég að því að hann hefur komið að heilmörgum rosalegum myndum eftir þessa, eins og Fifth Element, Taxi seríunni, Transporter seríunni, Yamakasi og síðast en ekki síst Danny the dog.

All in all klikkuð mynd sem skilur mann eftir hugsandi hvort gæinn sem býr einn í næstu íbúð sé leigumorðingi. Svo eru gleraugun hans líka geðveikt nett.

Fight Club(1999). Þessi mynd ... er sennilega á topplistanum hjá næstum hvaða unga karlmanni sem er. Hún á það líka skilið. Ég get einhvern veginn alltaf horft á hana, ef ég nenni ekki að horfa á neitt sem ég á, get ég samt sett á Fight Club. Ég horfði fyrst á hana í bíl í einhverri drasl iPod-líkri græju sem spilaði bíómyndir á 2” skjá. En ég var heillaður uppúr skónum, enda 14 ára og tilbúinn að taka við hvaða andsamfélagslega áróðri sem er.

Ég ætla ekkert að fjöyrða um söguþráðinn en hann þekkja lang flestir. Það sem má hins vegar endalaust tala um er frammistaða Brad Pitt en þarna sýnir hann hversu góður hann getur verið. Ég hélt alltaf að hann væri alger aula leikari, en svo fór ég að horfa á betri myndir með honum, og hann er nú í miklu uppáhaldi. Edward Norton er líka góður og Helena Bonham Carter betri þó hvorugt nái hæðum Brad Pitt.

Fight Club skilur mann eftir í algeru rugli og eftir að ég horfði í fyrsta sinn ætlaði ég að byrja strax aftur bara svo ég gæti meðtekið hana betur. Gaman er að sjá hvernig líf “sögumannsins” breytist þegar hann finnur tilgang og eitthvað sem hann getur haldið í.

The Truman Show(1998). The Truman Show er frumleg mynd í alla staði. Í henni leikur Jim Carrey aðalhlutverkið, en það er nokkuð alvarlegra en hann var vanur þá. Hann sýnir þó að hæfileikar sýnir nái út fyrir grínið, en kannski ekki á neinn Óskars mælikvarða þarna(hann gerir það seinna). Ed Harris er bestur af leikurunum og passar vel sem þessi föður/guða týpa.

Myndin fjallar um Truman Burbank, sem lifir einkar einföldu lífi á “eyju” í stærsta kvikmyndaveri í heimi. Það sem furðulegt er þó, er að hann er sá eini sem veit ekki að honum er sjónvarpað um allan heim. Truman fer að gruna að ekki sé allt með felldu þegar allt virðist snúast í kringum hann sjálfan.

Ástæðan fyrir að ég set þessa mynd á listann er fyrst og fremst sú, þó hún sé líka virkilega góð, að hún hafði mikil áhrif á mig þegar ég sá hana fyrst árið 1999, þá 9 ára. Ég fór mikið að pæla hvort ég væri í sömu stöðu og Truman, og hvað ég myndi gera ef svo væri. Ég lá hugsandi mörg kvöld fyrir svefninn og ég mun sennilega aldrei gleyma þessari mynd, enda hugsunin brennimerkt innan á kúpuna.

Reservoir Dogs(1992). Ég get ekki búið til topplista án þess að vera með Quentin Tarantino mynd á honum. Þó að Pulp Fiction sé á margan hátt betri mynd en Reservoir Dogs þá er ég, eða held það allavega, hrifnari af þeirri síðarnefndu. Þessi mynd er ekki margt annað en samtöl og samt tekst Tarantino að halda spennu allan tímann eftir fáránlega svala byrjunaratriðið. Leikararnir standa sig frábærlega og mér finnst erfitt að velja einhvern sem stendur endilega uppúr, en Tim Roth er mjög sannfærandi svona alblóðugur og fínn.

RD fjallar um þjófa sem þekkjast ekki en eru fengnir til að ræna demöntum úr verslun. Það eina sem þeir fá eru litir til að nefna hvern annan eftir og það er einhvern vegin alveg rosalega töff, en kannski bara því allt annað í myndinni er rosalega töff. Stíllinn hans Tarantino sést alveg hrár í þessari mynd og fáu bætt á samtölin nema söguþræði og illa nettri tónlist. Bottom line er, að þetta er töffaðasta mynd sem ég hef séð.

Oldboy(2003). Það er eitthvað við þessa mydn, ég veit ekki alveg hvað, sem fær mig til að kikna í hnjánum. Ætli það sé ekki allt tilfinningaflæðið sem maður fær bara beint í feisið. Oldboy fjallar um mann sem er lokaður inni í herbergi í 15 ár án þess að vera sagt af hverju. Hann er svo látinn laus en þá reynir hann að komast að því hver lokaði hann inni.

Oldboy hefur allt sem myndir geta haft. Hún er full af tilfinningum og slagsmálum og hefur líka þennan nettleika yfir sér. Tónlistin spilar stóran þátt í að skapa aðstæðunum raunverulegt gildi en Min-sik Choi sýnir einnig stórleik í aðalhlutverkinu.

Nú er í bígerð Hollywood endurgerð, en það er viðbúið eftir vilsældir Oldboy. Will Smith kemur til með að leika aðalhlutverkið og ég sé það sem ljósan punkt, því hann hefur sýnt það undanfarið að hann er ekki bara enn einn asna grín/hasar leikarinn. Ég er ekki hrifinn af svona endurgerðum en ætli Will dragi mig ekki í bíó í þetta skiptið.


Fleiri myndir sem geta alveg eins verið á topplistanum mínum eru :

Memento

American History X

Wall-E

Silence of the Lambs

The Pianist

The Big Lebowski

V for Vendetta

Princess Mononoke

Trainspotting

og eflaust fleiri sem ég gleymi.

Tuesday, September 1, 2009

Bloggedíblogg

Eitt blog bara til þess að prófa að blogga.